Betri vöktun hefði átt að vera í stjórnkerfinu og ljóst er að stjórnvöld létu úrbótavinnu í tengslum við fyrstu úttekt FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sitja á hakanum frá árinu 2006 fram til ársins 2018. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Eftir að önnur úttekt starfshópsins var birt í apríl í fyrra segir Katrín að það hafi komið á borð ríkisstjórnarinnar og mikil vinna hafi verið sett í gang af stjórnvöldum, en málið var á borði dómsmálaráðuneytisins.
Spurð hvort hún muni eftir að málið hafi komið á borð ríkisstjórnarinnar sem hún sat í sem menntamálaráðherra á árunum 2009-2013 segir Katrín að hún muni ekki til þess. „En ég dreg þá ályktun þegar skýrslan kemur árið 2018 að þetta hafi setið á hakanum, einmitt vegna þess að við vorum í höftum,“ segir hún og vísar þar til fjármagnshaftanna.
Katrín segir að tvennar kosningar, árin 2016 og 2017, og óstöðugleiki í stjórnmálum hafi líklega haft sitt að setja um að málið hafi ekki verið framar á borði stjórnvalda. „Það hefur ötullega verið unnið að málinu síðan það kom fyrst á borð ríkisstjórnarinnar [árið 2018], en það hefði átt að vera betri vöktun í stjórnkerfinu,“ segir hún og bætir við: „Það má ljóst vera að betur hefði mátt halda á spilunum.“
Á föstudaginn var Ísland sett á gráan lista samtakanna yfir ríki sem þykja ekki hafa gripið til fullnægjandi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Starfshópurinn gerði fyrstu úttekt sína á Íslandi árið 2006. Var þá lýst yfir áhyggjum af stöðu mála hér á landi og í kjölfarið var brugðist við með nokkrum lagafrumvörpum og með því að koma upp peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra.
Eftir fjármálahrunið 2008 virðist lítið hafa gerst í þessum efnum, því í apríl 2018 skilaði FATF annarri úttekt þar sem niðurstaðan var mjög svört. Gerði FATF 51 athugasemd við stöðu mála hér á landi meðal annars um skráningar á haldlögðum munum, aðgengi stjórnvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur og leiðir til þess að tryggja greitt aðgengi að slíkum upplýsingum. Stjórnvöld hafa unnið að því síðan í apríl á síðasta ári að bregðast við þessum athugasemdum en ekki náðist að klára öll mál.
Í september á þessu ári gerði FATF sex athugasemdir vegna stöðu mála hér á landi og náðu stjórnvöld að bregðast við flestum þeirra, annaðhvort með því að klára þau mál eða setja þau í ferli, en það var ekki nóg til þess að koma í veg fyrir að Ísland endaði á gráa listanum.
Í tengslum við umræðu um peningaþvætti hefur fjárfestingaleið Seðlabankans oft verið nefnd, enda hefur komið fram að bankinn hafi ekki haft yfirsýn yfir uppruna fjármagns sem kom inn til landsins í gegnum þessa leið. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur meðal annars ítrekað gagnrýnt hvernig þessum málum var háttað og í Silfrinu í gær sagði hann fjárfestingarleið Seðlabankans eina skýrustu opinberu peningaþvættisleiðaopnun sem nokkurn tíma hafi verið framkvæmd.
Spurð út í þessi ummæli Þórðar Snæs segir Katrín að hún hafi ekki séð umræddan þátt eða ætli að tjá sig um einstök ummæli í tengslum við þetta. Hins vegar sé henni kunnugt um gagnrýnina sem hafi komið fram og segir eðlilegt að ræða hvað gert verði. „Ég útiloka ekki að þetta verði tekið til nánari skoðunar,“ segir hún spurð hvort hún telji rétt að reyna að grafast betur fyrir um uppruna fjármunanna.
Slíkt gæti þó reynst erfitt, en í skýrslu Seðlabankans um fjárfestingaleiðina frá því í ágúst, segir að samtals 2,4% af heildarfjárfestingu sem fór í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans á árunum 2011-2015 hafi verið frá aflandsfélögum á lágskattasvæðum. Útilokaði Seðlabankinn þó ekki að hlutfallið geti hæglega hafa verið mun hærra enda ekki haft yfirsýn yfir uppruna fjármagnsins.