Ferli FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, er ófyrirsjáanlegt og ógagnsætt að mati fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson segir að starfshópur ríkisstjórnarinnar vegna FATF hafi unnið hratt og örugglega niður langan lista athugasemda sem gerðar voru í kjölfar úttektar á málefnum peningaþvættis hér á landi og að komið hafi á óvart að FATF hafi ekki metið það svo að við værum komin lengra.
„Það kom okkur t.d. á óvart að það kæmi svona skýr krafa um að við kláruðum löggjöfina um almannaheillafélögin, sem var ekki eitt af þeim atriðum sem höfðu verið sérstaklega til umræðu á fundum.“
Það sé þetta sem geri ferlið ófyrirsjáanlegt, auk þess sem það sé ógagnsætt vegna þess að samkomulag sé um að ekki sé tekið fram hvernig einstök aðildarríki ráðstafi sínum atkvæðum. Það sé þó ljóst að ekki hafi verið full samstaða meðal aðildarríkja um að setja Ísland á listann.
Í samtali við mbl.is eftir fund efnahags- og viðskiptanefndar segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, sem sat fyrir svörum á fundinum ásamt Bjarna, að fljótt hafi verið brugðist við þeim sex atriðum sem út af stóðu samkvæmt FATF í lok september.
„Við bregðumst mjög fljótt við þeim atriðum og samþykkjum m.a. lög á Alþingi til að verða við þessum tilmælum. Svo er niðurstaðan sú að við förum á þennan lista þrátt fyrir það og í þeirri niðurstöðu kemur fram að þrjú atriði séu útafstandandi. Þau eru auðvitað öll í ferli og FATF tekur það fram.“
„Eitt af þessum þremur atriðum snýr að þessari löggjöf sem við samþykktum á Alþingi um almannaheillafélög og það kemur fram í niðurstöðu FATF að ekki hafi gefist tími til að fara efnislega yfir hvort löggjöfin uppfylli þau skilyrði sem þau setja.“