„Í samræmi við óskrifaðan prótókol hafði ég hugsað mér að eftir að ég léti af embætti seðlabankastjóra myndi ég í nokkurn tíma taka sem minnstan þátt í umræðu um málefni Seðlabankans. Ég tel mig hins vegar nauðbeygðan til að gera hér undantekningu vegna þess á hve miklum villigötum umræðan er um peningaþvætti í tengslum við svokallaða fjárfestingarleið Seðlabankans á árunum 2011-2015.“
Þetta skrifar Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, í grein um peningaþvætti og fjárfestingleið Seðlabankans sem birtist á Kjarnanum þar sem hann svarar þeim fullyrðingum ritstjóra Kjarnans, Þórðar Snæs Júlíussonar, um að fjárfestingaleiðin hafi verið „opinber peningaþvættisleið.“
Þórður Snær sagði í Silfrinu á RÚV á sunnudaginn að fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands hafi verið ein skýrasta opinbera peningaþvættisleið sem nokkurn tímann hafi verið framkvæmd og að Ísland hafi verið galopið gagnvart peningaþvætti áratugum saman.
Már segir Þórð vera einn albesta blaðamann landsins, ekki síst á sviði viðskipta- og efnahagsmála en að hann hafi villst af leið í umfjöllun sinni um þetta fjárfestingaleið Seðlabankans.
„Sú leið var opnuð í október 2009 þegar fjármagnshöft á innflæði erlends gjaldeyris vegna nýfjárfestingar hér á landi voru afnumin. Það var gert sakir þess að greiðslujafnaðarvandi Íslands var þá og í mörg ár á eftir útflæðisvandi en ekki innflæðisvandi. Þau sem komu inn með erlendan gjaldeyri eftir þetta þurftu að skipta honum í íslenskar krónur hjá fjármálafyrirtæki hér á landi og tilkynna um viðskiptin til Seðlabankans í gegnum fjármálafyrirtækið. Eftir það höfðu þau hvenær sem er heimild til útgöngu með þá fjármuni og alla ávöxtun þeirra. Samkvæmt lögum áttu bankarnir að kanna slíkar færslur eins og aðrar með tilliti til peningaþvættis og Fjármálaeftirlitið að hafa eftirlit með því að svo væri gert,“ skrifar Már áður en hann útskýrir málið nánar.
Már skrifar að þeir sem hafi tekið þátt í fjárfestingarleiðinni hafi gert það gegnum fjármálafyrirtæki, aðallega verið innlendir viðskiptabankar, sem hafi gert samning við Seðlabankann um slíka milligöngu. Í útboðsskilmálum og milligöngusamningum hafi verið skýrt tekið fram að fjármálafyrirtækin skyldu annast könnun á umsækjendum með tilliti til mögulegs peningaþvættis.
„Það var ófrávíkjanlegt skilyrði að umsókn fylgdi staðfesting fjármálafyrirtækis að slík könnun hefði farið fram með jákvæðri niðurstöðu. Ætla mætti að þetta hafi valdið því að fjármálafyrirtækin væru meir á varðbergi en alla jafna. Þessu til viðbótar máttu umsækjendur ekki hafa brotið gegn fjármagnshöftunum eða vera til rannsóknar fyrir slík brot. Seðlabankinn kannaði sjálfur þetta atriði. Rétt er að geta þess að skattrannsóknarstjóri hefur fengið allar upplýsingar um þá sem tóku þátt í fjárfestingarleiðinni,“ skrifar Már.
Því hafi þeir þau sem ætluðu sér að flytja illa fengið fé til landsins betur gerð það eftir almennum leiðum sem hafi verið opnar.
Þá segir Már að umræður um fjárfestingaleiðina og tengsl hennar við peningaþvætti hafi blossað upp í framhaldi af ákvörðun FATF að setja Ísland á gráan lista varðandi varnir gegn peningaþvætti.
„Ef það væri rétt sem haldið hefur verið fram að fjárfestingarleiðin hafi verið opinber peningaþvættisleið mætti halda að gerð hafi verið athugasemd við hana í skýrslum FATF. Mér er kunnugt um að sendinefnd FATF hafi fengið kynningu á fjárfestingarleiðinni og hafi verið afhentir skilmálar hennar á ensku í aðdraganda skýrslu FATF sem birt var á síðasta ári. Engar athugasemdir voru gerðar við fjárfestingarleiðina í skýrslunni né síðar en FATF er ekki þekkt fyrir að sitja á sér varðandi slíkt ef tilefni þykir til,“ bætir Már við.
Hann útilokar þó ekki að illa fengið fé hafi sloppið í gegnum nálarauga fjárfestingarleiðarinnar þótt ekkert bendi til þess að það hafi verið algengt.