„Síleska þjóðin er búin að fá nóg. Hún sagði bara stopp,“ segir Godofredo Aravena, síleskur skipahönnuður sem búsettur er hér á landi. Hann segir þjóð sína hafa fengið sig sadda af spilltum stjórnvöldum eftir áratuga langt arðrán.
Átök brutust út fyrir viku síðan vegna hækkaðs verðs á lestarmiðum. Hækkunin var dregin til baka en það dugði ekki til að lægja mótmælaöldurnar og hefur almenningur síðan mótmælt lágum launum, misskiptingu og spillingu. Átján hafa látið lífið síðan mótmælin brutust út, þar á meðal fjögurra ára gamalt barn.
Godofredo segir erfitt að fylgjast með atburðarrásinni í föðurlandinu. Hann hefur verið búsettur hér á landi ásamt eiginkonu sinni í fimm ár, en hann fluttist til Íslands þegar honum var boðið starf sem skipahönnuður hjá íslensku fyrirtæki. Dætur hans eru búsettar í Síle og hyggst hann flytja aftur heim til sín á næsta ári.
„Ástandið í Síle núna er afleiðing áratuga langrar misnotkunar af hálfu stjórnvalda síðustu fimmtíu árin. Mótmælin núna tengjast ekki endilega Piñera forseta, þó hann hafi vissulega haldið áfram sömu stjórnarháttum og forverar hans. Þetta hefur verið svona lengi og það var tímaspursmál hvenær það myndi sjóða uppúr. Það er svo mikil uppsöfnuð reiði hjá þjóðinni,“ segir Godofredo í samtali við mbl.is.
„Stjórnvöld hafa samt ekki búist við þessu. Síðustu ríkisstjórnir hafa einfaldlega ekki skilið þarfir fólksins og hafa haldið að það litla sem gert er fyrir það sé nóg. Síleska þjóðin er úrræðagóð og hefur náð að gera gott úr því litla sem hún hefur haft úr að moða án þess að kvarta mikið.“
„En eftir áratuga langt arðrán þjóðarinnar á meðan hinir fáu ríku verða enn ríkari og valdameiri á kostnað þjóðarinnar, ákvað þjóðin að nú væri nóg komið.“
Godofredo segir að svipaðar aðstæður hafi komið upp eftir jarðskjálftann í landinu árið 2010 þegar á annað hundrað manns létust. Mótmælin þá hafi þó verið mun umfangsminni. Hann fylgdist með mótmælunum þá og sagði að uppsöfnuð reiði í garð stjórnvalda hafi brotist út vegna ónægra aðgerða í kjölfar skjálftans.
„Við upplifum öll reiði einhvern tímann og núna er þjóðin komin með nóg. Því miður er Piñera forseti ekki góður stjórnmálamaður og hann hefur ekki náð að takast á við stöðuna eins og best væri á kosið heldur frekar beitt ofbeldi umfram hófleg mörk. Stjórnmálamönnum í Síle er almennt aðeins umhugað um þeirra eigin hagsmuni og misnota alltof oft vald sitt.“
„Sílebúar virða stjórnvöld og ná að spjara sig ágætlega, en bara rétt svo. Launin eru lág og þó svo að fólk geri gott úr því, þá safnast upp reiði eftir ótalmörg ár af sömu hringrásinni og misskiptingu. Eftir svo langan tíma er hægt að nota hvaða afsökun sem er til þess að koma reiðinni út.“
Piñera forseti lagði til fyrr í vikunni félagslegar umbætur, en markmið þeirra er að binda enda á mótmælin. Meðal þess sem forsetinn lagði til var að skattar á rafmagn yrðu frystir, lágmarkslífeyrir hækkaður og að ríkið stæði straum af kostnaði við dýrar læknaaðgerðir.
Godofredo telur ólíklegt að umbæturnar muni draga úr reiði mótmælenda. Segir hann stjórnvöld leika sér að lögum og reglum og að þjóðin sjái í gegnum það.
„Hann er að grípa til örþrifaráða til að slökkva eldinn. Þessar tillögur frá honum eru bara til að sýna að hann sé að gera eitthvað, að hann skilji að fólk sé reitt og að hann skilji skilaboðin sem það sé að senda. En þessar umbætur munu ekki hafa mikil áhrif, hagkerfið í landinu mun ennþá vera óbreytt og það er hagkerfið sem er stærsta vandamálið.“
Godofredo segir dætur sínar í Síle vera í fínum málum. Þó sé erfitt að vera fjarri þeim þegar ástandið er eins óstöðugt og núna.
„Við höfum talsverðar áhyggjur af þeim en þær spjara sig vel. Ástandið mun róast og friður nást. Jafnvel þó að í fjölmiðlum virðast mótmælin vera ofbeldisfull alls staðar er það ekki svo. Dætur mínar segja okkur að flestir séu friðsamlegir. Sums staðar er hræðilegt ofbeldi en flestir eru að mótmæla friðsamlega, láta bara í sér heyra.“
Godofredo segist vera bjartsýnn á að ró komist á í Síle innan tíðar. Hann segir nær ómögulegt að forsetinn segi af sér, en að mótmælin muni eftir sem áður líða undir lok.
„Ef Piñera segði af sér myndi samt ekkert breytast. Að öllum líkindum kæmi einhver alveg eins og hann sem myndi halda áfram sömu stjórnarháttum. Ég fer aftur heim á næsta ári og ég er vongóður fyrir framtíðina. Hlutirnir breytast hægt en breytast þó.“
„Sílebúar eru góð þjóð og það er mikið af menntuðu fólki sem gæti gert frábæra hluti. Möguleikarnir eru bara svo fáir. Ég vona að hlutirnir komist á einhverja hreyfingu næsta áratuginn. Ég rak mitt eigið fyrirtæki fyrir áratug síðan og það var mjög erfitt, ég held að það væri aðeins auðveldara í dag,“ segir Godofredo.
„Hvert skref sem við tökum greiðir fyrir því næsta. Það verða engar róttækar breytingar en með árunum lagast hlutirnir alltaf eitthvað og eftir einhverja áratugi mun þjóðin kannski líta til baka á þessi mótmæli sem upphafið af nýrri framtíð fyrir landið. Ég er bjartsýnn fyrir þjóðina mína.“