Stjórnvöld hafa hert sína afstöðu til flóttafólks og hælisleitenda mjög að undanförnu, segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Hún telur að mál albanskrar konu sem send var úr landi þrátt fyrir að vera komin tæpar 36 vikur á leið sýni að stjórnvöld þurfi lagaákvæði sem gefi ekki tilefni til túlkunar.
„Ef íslensk stjórnvöld meta manneskju sem er komin 36 vikur á leið og gengur í gegnum áhættumeðgöngu ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu þá veit ég ekki hver telst vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að mati íslenskra stjórnvalda,“ segir Helga Vala.
Hún telur að útlendingalöggjöfin ætti að vernda fólk í svipaðri stöðu og albönsku konuna en lögin séu ítrekað túlkuð gegn flóttafólki og hælisleitendum af íslenskum stjórnvöldum.
„Ef maður horfir bara á útlendingalögin þá er tilgangur þeirra að sýnd sé aðgát og mannúð. Ef fólk er í sérstaklega viðkvæmri stöðu þá á ekki að vísa því á brott. Það eru mörg ákvæði sem tryggja sérstaklega þá sem eru í viðkvæmri stöðu,“ segir Helga Vala.
„Við erum bara með fjölmörg atriði sem mæla gegn svona framkvæmd. Við erum bara að tala um meðalhóf sem er í stjórnsýsluréttinum. Við erum að tala um að stjórnvöld fari ekki fram með þeim hætti að þau skapi hættu. Við erum með óteljandi vinkla á þessu máli,“ segir Helga.
Konan hafði fengið vottorð frá lækni á Landspítala sem mældi gegn því að hún færi í langt flug vegna stöðu sinnar. Það vottorð var þó ekki tekið gilt af lögreglu sem sendi konuna úr landi í nótt en vísaði lögregla til vottunar læknis á vegum Útlendingastofnunar sem sagði að konan væri flugfær. Konan kannaðist þó ekki við að hafa hitt þann lækni.
„Í þessu máli byggja íslensk stjórnvöld á vottorði sem er ritað af einstaklingi sem ekki framkvæmdi læknisskoðun á þessari manneskju heldur er byggt á heimsókn manneskjunnar til læknis þremur vikum áður. Það vottorð er tekið fram yfir vottorð sérfræðilækna á staðnum sem mæla eindregið gegn því að hún sé sett í flug vegna hennar viðkvæmu stöðu.“
Spurð hvort lagarammi utan um fólk í viðkvæmri stöðu þyrfti að vera skýrari segir Helga:
„Ég held að við séum núna komin á þann stað að stjórnvöld sem hegða sér með þessum hætti þurfi að fá lagaákvæði sem ekki gefa neitt tilefni til mats. En það er auðvitað ekki eins og lög eiga að vera vegna þess að lög eiga frekar að vera almenn en sértæk. Það er dæmi um vandaða lagasetningu, að vera ekki of tæmandi því þá falla alltaf einhverjir utan við þau.“
Helga hefur kynnt sér málið og heyrt frá konunni sem gengur í gegnum áhættumeðgöngu.
„Nú hef ég gengið með barn og veit hvað þetta er og ég hef líka fengið að heyra sögu þessarar konu og hennar fæðingarsögu. Þetta er brjálæðislega alvarlegt. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að flugfélag hafi samþykkt að taka hana um borð í vél.“
Helga telur að stjórnvöld séu farin að túlka lögin enn frekar gegn hælisleitendum. „Stjórnvöld hafa hert mjög stefnu sína að undanförnu. Um það eru þeir sammála sem vinna í þessum geira, þar eð að segja þeir sem eru ekki partur af stjórnvöldum. Ég vann í þessum geira fyrir fimm árum.“
Aðspurð segir Helga að enginn vilji sé fyrir því að breyta kerfinu svo sambærileg mál haldi ekki áfram að skjóta upp kollinum.
„Í stjórnarsáttmálanum er talað um þverpólitíska nefnd um útlendinga. Sú nefnd var sett á laggirnar og fundaði uppi í dómsmálaráðuneyti en það kom ekkert út úr því og sú nefnd var bara þar til að hlusta á þáverandi dómsmálaráðherra kynna sín stefnumál. Ég hef ekki séð að stjórnvöld hafi minnsta áhuga á þessu. Það á þá bæði við um dómsmálaráðherra og forsætisráðherra.“
Helga tekur undir með Ungum jafnaðarmönnum og Kvennahreyfingu Samfylkingarinnar sem sögðu fyrr í dag að framkvæmdin hafi brotið í bága við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
„Það er alveg klárt að það var hvorki gætt að hagsmunum hins ófædda barns né hagsmunum hins tveggja ára gamla barns. Það blasir við og mér finnst þetta ómannúðleg framkoma.“