Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra telur að í þær upplýsingar sem lágu fyrir um ástand albönsku konunnar sem vísað var úr landi í gær hafi átt að vera nægilega skýrar til þess að hún hafi fengið að vera um kyrrt. Þetta kom fram í máli ráðherrans í Kastljósi í kvöld.
Brottvísun albanskrar konu sem er komin tæpar 36 vikur á leið og fjölskyldu hennar hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu. Sérstök umræða var um málefni innflytjenda á Alþingi í dag og var fjarvera Svandísar gagnrýnd af stjórnarandstöðuþingmönnum. Forseti Alþingis gaf þær skýringar að ráðherrann hafi verið búin að gera ráðstafanir annars staðar og benti á að fjarvera hennar ætti sér eðlilegar skýringar þar sem umræðan var ákveðin með dags fyrirvara.
„Það er mín afstaða, enn og aftur sem æðsti yfirmaður heilbrigðismála í landinu, að sé vafi að því er varðar heilsufar um það hvort viðkomandi hafi heilsu til að fara úr landi eða ekki, þá á sá vafi að vera túlkaðir viðkomandi einstaklingi í hag,“ sagði Svandís í Kastljósi.
Hún var í hópi þingmanna sem kom að gerð frumvarps um lög útlendinga sem samþykkt voru árið 2016. „Þar vorum við að stíga ákveðin skref í áttina til þess að við værum að skrifa með skýrari hætti inn í lögin mannúðarsjónarmiðin,“ sagði Svandís. Hún telur hins vegar eðlilegt að verklagið sé endurskoðað.
„Þetta er einfalt grundvallaratriði í raun að ef það eru efasemdir sem lúta að því að viðkomandi mögulega hafi ekki heilsu til þess að takast á hendur langt ferðalag þá eigi heilsa viðkomandi að njóta vafans,“ sagði hún.
Útlendingastofnun hefur þegar óskað eftir fundi með embætti landlæknis til að fara yfir málið sem og almennt um það með hvaða hætti skuli standa að öflun læknisvottorða vegna slíkra mála. Svandís segir það mikilvægt skref.
„Hvert svona tilvik kennir okkur ákveðna sögu en við megum ekki gleyma því að hvert svona tilvik snýst um fólk og líf,“ sagði Svandís.