Gagnrýndi fjarveru heilbrigðisráðherra

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hari

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sendi póst á formann allra þingflokka í gær með ósk um að kannað yrði hvort Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sæi sér fært að sitja óundirbúinn fyrirspurnatíma á þinginu í dag til að svara fyrir brottflutning þungaðrar albanskrar konu og fjölskyldu hennar í gær. 

„Það er skemmst frá því að segja að hér situr hæstvirtur heilbrigðisráðherra ekki, en það sem er eiginlega verra er að ég fékk engin svör við þessari beiðni. Þannig að ég ætla nú að vefengja orð hæstvirts forseta að hér skorti ekki á úrræði og tækifæri innan ramma þingskapa,“ sagði Hanna Katrín við upphaf þingfundar. 

„Ég hef ekki hugmynd hvort yfir höfuð eftir því var leitað að ráðherra kæmi hingað til að taka þátt í umræðu um þessi mál. Þannig að ég vísa því eiginlega til föðurhúsanna að við höfum hér öll þau tækifæri sem við þurfum til að ræða við ráðherra þegar upp koma brýn pólitísk mál sem þarf að ræða í núinu en ekki fara eftir einhverri stífri dagskrá og fyrirframskipaðri,“ sagði Hanna Katrín.  

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, furðaði sig á orðum Hönnu Katrínar og benti á að brugðist hefði verið við með því að setja sérstaka umræðu um málefni innflytjenda á dagskrá þingfundar í dag. „Mér finnst það nokkuð langt gengið að kvarta sérstaklega undan því að óskir háttvirtra þingmanna til að ræða þetta mál, að ekki hafi verið vel við þeim tekið, þegar að sérstök umræða um það mál er sett strax á dagskrá daginn eftir.“ 

Steingrímur segir að Svandís hafi brugðist vel við en að hún hafi verið búin að ráðstafa sér annað á þessum tíma. „Sem er fullkomlega skiljanlegt í ljósi þess að samkvæmt skipulagi ríkisstjórnar var hún ekki á listum yfir þá ráðherra sem væru í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag, sagði Steingrímur og bætti við að hann taldi ekki innistæðu fyrir þessari gagnrýni Hönnu Katrínar. 

Sérstök umræða um málefni innflytjenda hefst á Alþingi klukkan 16:15. Málshefjandi er Jón Steindór Valdimarsson og til andsvara er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert