Fjölskyldan sem var vísað frá Íslandi snemma í gærmorgun er komin til Albaníu, samkvæmt upplýsingum frá samtökunum No border. Á Facebook-síðu samtakanna frá því eitt í nótt kemur fram að þau séu enn í haldi lögreglu, 19 klukkutímum frá brottvísun.
Starfsmenn ríkislögreglustjóra fylgdu fjölskyldunni úr landi en fyrst var flogið til Berlínar, þaðan til Vínar í Austurríki og að lokum til Albaníu í gærkvöldi.
Um er að ræða hjón með tveggja ára gamlan son sinn en konan er komin tæpar 36 vikur á leið. Mjög er tekist á um hvers vegna konunni hafi verið vísað úr landi þar sem í læknisvottorði kemur fram að hún þjáist af stoðkerfisverkjum og ætti erfitt með langt flug.
Yfirlæknir á Landspítalanum lítur það alvarlegum augum að Útlendingastofnun hafi sent þungaða konu í flug þrátt fyrir læknisvottorð um að það væri óráðlegt, að því er fram kom í fréttum RÚV í gær en konan hafði dvalið hér á landi í einn mánuð áður en þeim var vísað úr landi.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar að skoða mál konunnar og biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, hefur óskað eftir fundi með ráðherra til þess að ræða málefni hælisleitenda.
Aðstoðarforstjóri Útlendingastofnunar, Þorsteinn Gunnarsson, sagði í Kastljósi í gærkvöldi, að málið gefi tilefni til að fara í samtal við heilbrigðisyfirvöld, félagsþjónustu og fleiri um hvernig eigi að þjónusta hælisleitendur.
Þorsteinn segir Útlendingastofnun standa með hælisleitendum. „Við virðum aðstæður þessa fólk og við virðum fólkið sjálft. Við gerum það sem við getum til þess að aðbúnaður þess sé eins góður og hægt er. Við leggjum mikla áherslu á að tryggja réttindi þess hóps sem leitar til okkar,“ er haft eftir Þorsteini á vef RÚV.