Örvænting og sorg í kjölfar skilnaðar

309 umgengnismál komu til meðferðar sýslumanns árið 2018. Af þeim …
309 umgengnismál komu til meðferðar sýslumanns árið 2018. Af þeim voru ágreiningsmál sem vísað var í sáttameðferðar 153 talsins. 60% þeirra lýkur með sátt. Ljósmynd/Thinkstock

„Maður upplifir fólk í örvæntingu og gríðarlegri sorg þegar það finnur sig vera að missa tengsl við barnið sitt eftir skilnað,“ segir Þórdís Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi, sáttamaður og sérfræðingur í málefnum barna og fagstjóri í sáttamiðlun og sérfræðiráðgjöf hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er skiljanlega erfitt  sorgarferli og þarna taka frumstæðar stöðvar í heilanum við og í slíkum aðstæðum þarf að mæta  fólki af skilningi og kærleika og sýna því samkennd.“

Þær Þórdís og  Eyrún Guðmundsdóttir lögfræðingur og sviðsstjóri fjölskyldusviðs Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, settust niður með blaðamanni mbl.is og ræddu forræðis- og umgengnismál og áhrif þeirra á börnin.

Árið 2013 tóku gildi lög hér á landi sem kveða á um að sé ágreiningur um umgengni eða forsjá er fólki gert að taka þátt í sáttaferli. Þórdís segir sáttaferlið vera að reynast mjög vel. „Það er aðeins misjafnt eftir málum, en sáttameðferðin er að ná í kringum 60% árangri sem þykir mjög gott.“

Hér á landi eru það eingöngu ágreiningsmálin sem fara í sáttameðferð, en t.d. í Noregi er öllum sem skilja gert að fara í að minnsta kosti eitt viðtal og er það gert til að fyrirbyggja að það komi upp ágreiningur síðar. „Norðmenn eru að sýna um 80% árangur í þessum málum, en þeir eru þar með öll skilnaðarmál undir, líka þar sem fólk telur sig sammála um börnin,“ segir Þórdís.

Í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu komu 309 umgengnismál til meðferðar sýslumanns árið 2018. Af þeim voru ágreiningsmál sem vísað var í sáttameðferðar 153 talsins eða rétt tæpur helmingur.    

Þór­dís Rún­ars­dótt­ir, sér­fræðing­ur í mál­efn­um barna og Eyrún Guðmunds­dótt­ir sviðsstjóri …
Þór­dís Rún­ars­dótt­ir, sér­fræðing­ur í mál­efn­um barna og Eyrún Guðmunds­dótt­ir sviðsstjóri fjöl­skyldu­sviðs Sýslu­manns­ins á höfuðborg­ar­svæðinu. Þær segja árangur af sáttameðferð meiri en tölurnar segja til um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stundum fyrstu samræðurnar í langan tíma

Þó tölurnar segi árangurinn 60% kveðst Þórdís telja hann vera enn meiri, því þó ekki ljúki öllum málum með samningi er því fjarri að þau 40% sem út af standa endi öll í úrskurðarferli. „Sumir fara héðan út, en biðja aldrei um úrskurð þannig að þá ríkir að einhverju marki sátt,“ segir hún. Í sumum tilvikum næst samkomulag um hluta ágreiningsins. „Það er líka árangur ef fólk nær uppbyggilegu samtali um erfið málefni sín. Þó markmiði sé að ljúka tilteknu máli með samkomulagi, þá er einnig vonast til að sáttameðferðin geri það hæfari til að takast á við áskoranir í foreldrasamstarfinu í framtíðinni.“

Að sögn Eyrúnar er hlutfall þeirra umgengnismála  sem koma til embættisins og sem síðan er úrskurðað í árlega um 10% af heildarfjöldanum.

„Stundum er fólk að setjast hér niður og tala saman augliti til auglitis sem ekki hefur talað saman í mjög langan tíma,“ útskýrir hún. „Þess í stað hefur það látið tölvupósta og skilaboð duga og það er samskiptamáti sem er auðvelt að misskilja.“

Samkomulagið er almennt talið lífsseigara hafi foreldrar komist að því sjálfir, heldur en ef mál eru send í úrskurðarferli.

„Það er íþyngjandi að vera í svona ferli,“ segir Þórdís. „Jafnvel þó að maður hafi óskað eftir því sjálfur þá getur það verið jafn sársaukafullt fyrir því.“ Erfitt sé að láta rýna í sig sem foreldri, hvað þá ef verið er að benda á það sem betur má fara. „Þetta er skiljanlega viðkvæmt.“

Harðar forræðisdeilur hafa neikvæð áhrif á börnin. „Þau sem koma …
Harðar forræðisdeilur hafa neikvæð áhrif á börnin. „Þau sem koma hingað inn í viðtal vegna harðra deilna tjá nær öll sömu óskina og hún er: „Geturðu sagt þeim að hætta. Ég vil að pabbi og mamma verði vinir“ segir Eyrún. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Gögn frá Barnahúsi mikilvæg  

Starfsmenn sýslumannsembættisins hafa verið sakaðir í umgengnismálum um að skauta framhjá mikilvægi gagna sem koma t.d. frá Barnahúsi og segir Þórdís ekkert vera fjær lagi.

„Þau hafa gríðarleg vægi og eru ein mikilvægustu gögnin. Við erum ekki í neinni aðstöðu til að vefengja þau. Gögn málsins geta þó stangast á og það kunna að vera gögn í máli sem benda í aðra átt en gagn um viðtal á vegum Barnahúss.“

Sú staða geti mögulega komið upp að barn segi ekki satt í viðtali hjá Barnahúsi eða öðrum og það geti komið fram í máli upplýsingar sem benda í þá átt að áhrif hafi verið höfð á barnið. Svo getur barn einnig valið að segja ekki frá ofbeldi í viðtal.

„Það er skoðunin á heildarupplýsingunum sem leiðir að okkar hinni endanlegu niðurstöðu,“ segir Eyrún og kveður það ekki verða fullyrt fyrirfram að eitthvað eitt gagn ráði niðurstöðu máls.   

Málin sem hætta ekki

Mikils virði er ef tekst að forða dómsmáli um forsjá því þau eru fólki mjög erfið. „Það er kannski frekar að það sé búið að herða ágreininginn,“ segir Eyrún og nefnir  að fjölskyldusvið fái líka inn á sitt borð umgengnismál og dagsektamál sem eru að koma beint í kjölfarið á dómsúrlausnum.

„Það er einkenni á þessum málum að jafnvel þó að kveðinn hafi verið upp dómur eða úrskurður, þá þarf fólk að halda áfram foreldrasamvinnu á grundvelli úrlausnarinnar og þar geta komið upp ný ágreiningsefni sem síðan leiða til nýrra mála hjá stjórnvöldum eða dómstólum,“ segir hún.

„Þó það sé búið að úrskurða um umgengni, þá er hægt að biðja aftur um slíkan úrskurð. Þá telur aðili að aðstæður hafi breyst,  sem stundum er. Foreldrar geta þannig rekið mörg mál um börnin, hjá sýslumanni, dómstólum og einnig barnavernd og þetta getur staðið yfir árum saman,“ segir Þórdís.

„Eitt af einkennum á þessum hörðustu ágreiningmálum er að þau hætta ekki. Það skiptir ekki máli hver reynir að fá niðurstöðu í málið, hvort það er sýslumaður sem úrskurðar um umgengni eða dómstóll sem ákveður forsjá lögheimili og umgengni.“

Allt getur orðið að ágreiningsefni í foreldrasamstarfi þar sem er …
Allt getur orðið að ágreiningsefni í foreldrasamstarfi þar sem er djúpstæður vandi. Deilur geta þannig komið upp vegna fatnaðar sem þarf að fara á milli heimila, aksturs í tómstundir, mataræðis barns, samveru barns með vinum og þátttaka þess í viðburðum í fjölskyldu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flosnar úr vinnu vegna deilnanna

Spurðar hvernig börn fari út úr slíkum deilum segja þær bæði börn og foreldra fara illa út úr hörðustu ágreiningsmálunum.

„Þetta getur verið svo slítandi að fólk dettur út af vinnumarkaði. Ég hef séð dæmi þess að fólk flosnar úr vinnu og er bara orðið veikt, því lífið snýst bara um þetta,“ segir Þórdís

Slíkar deilur hafa líka óneitanlega neikvæð áhrif á börnin. „Þau sem koma hingað inn í viðtal vegna harðra deilna tjá nær öll sömu óskina og hún er: „Geturðu sagt þeim að hætta. Ég vil að pabbi og mamma verði vinir“ segir Eyrún. „Það er erfið staða fyrir barn að vera í hollustuklemmu milli foreldra sinni og telja sig þurfa að velja annað foreldrið og það er pressa og álag.“

Börn eru diplómatar í eðli sínu og reyna jafnan að stilla til friðar. „Þau eru svo að segja okkur hluti sem þau vilja ekki að við berum áfram til foreldranna af því að þau eru hrædd um að kveikja nýja elda. Þess vegna slá þau stundum hiklaust af sínum þörfum.“

Börnin slá af þörfum sínum

Þórdís bendir á að allt verði að ágreiningsefni í foreldra samstarfi þar sem er djúpstæður vandi. „Sem dæmi má nefna ágreining um fatnað sem þarf að fara á milli heimila, akstur í tómstundir, mataræði barns, samvera barns með vinum og þátttaka þess í viðburðum í fjölskyldu. Þetta leiðir stundum til þess að barnið segi foreldrunum að það þurfi ekkert af þessu. „Ég þarf ekki að hafa fötin mín með mér, ég þarf ekki að vera í handbolta og nei, nei, ég þarf ekkert að hitta vini mína,“ segir Þórdís. „Þau fá jafnvel ekki að fara í afmæli á dögum pabba eða mömmu af því að tíminn sem foreldrið á með barninu er svo knappur.“

Álagið er hins vegar að þeirra sögn slíkt að barnið haldi áfram að slá af þangað til það geti það stundum ekki lengur og taki þá afstöðu með öðru foreldrinu.

„Barn getur verið undir gríðarlegu álagi vegna deilna foreldranna, sem það hefur dregist inn í. Til að varpa ljósi á stöðu barnsins má draga upp mynd af barni sem mamma heldur í öðru megin og pabbi hinum megin og barnið velur að sleppa öðru foreldrinu af hreinni sjálfsbjargarhvöt,“ segir Þórdís. Það er hins vegar óeðlilegt fyrir barn að hafna foreldri sínu, nema fyrir því séu einhverjar ástæður.

„Fyrirfram er gengið út frá því að það sé nauðsynlegt fyrir barnið að hafa tengsl við foreldri sitt og það er ekki skert nema fyrir því séu gild rök,“ bætir Eyrún við.

Ekki megi heldur ekki gleyma því að skilnaður foreldra getur verið sumum börnum léttir, það er ekki endilega skilnaðurinn sjálfur sem hefur neikvæð áhrif á börnin, heldur eru það deilurnar.

Börn í fjölmiðlum vegna umgengnismála 

Í sumum tilfellum leitar annað foreldrið í fjölmiðla með forsjár- og umgengnismál. Þegar foreldrar hafa rætt þær ráðagerðir við embættið, reyna starfsmenn fjölskyldusviðs alltaf að halda uppi sjónarhorni barnsins.

„Við spyrjum fólk hvort að þetta færi það nær markmiðum sínum eða fjær, því það fer ekkert framhjá unglingum ef slík mál eru í fjölmiðlum,“ segir Þórdís. Á endanum sé slíkt hins vegar alltaf ákvörðun viðkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert