„Þetta er svipað og að fara á Yaris upp á hálendi um miðjan vetur,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, í lýsingu sinni á aðstæðum á vettvangi þegar eldur kom upp í húsnæði Geymslna í Miðhrauni í Garðabæ á síðasta ári.
Í nýrri skýrslu Mannvirkjastofnunar kom m.a. fram að ekki hefði verið farið eftir þeim reglum og leiðbeiningum sem voru í gildi. Guðni Á. Haraldsson, lögmaður hóps fólks sem krefst skaðabóta frá fyrirtækinu Geymslum vegna brunans, segir skýrsluna áfellisdóm fyrir slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og byggingarfulltrúa.
Jón Viðar vísar þessari gagnrýni á bug. Hann bendir á að það sé í höndum eiganda húsnæðisins sem breytti húsnæðinu að að fara eftir reglum og tilkynna um þær breytingar með viðeigandi hætti.
Í skýrslunni er bent á að ekki var óskað eftir lokaúttekt þegar húsnæðið var fyrst tekið í notkun, ekki var heldur óskað eftir úttekt á stöðu framkvæmda áður en byggingin var tekin í notkun. Þá var ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun byggingarinnar þegar henni var breytt með afgerandi hætti úr kvikmyndastúdíói fyrir Latabæ í lager með auknu brunaálagi fyrir Icewear.
„Við vissum ekki af þessum breytingum því þær fóru ekki í gegnum hefðbundið kerfi. Ef þær hefðu gert það þá hefðum við vitað af þeim og getað sinnt eldvarnaeftirliti í samræmi við reglugerð um eldvarnaeftirlit,“ segir Jón Viðar. Hann tekur fram að slökkviliði hafi tekið út húsnæði á þeim tíma þegar þarna var starfrækt stúdíó Latabæjar. Það hafi staðist skoðun.
Hann segir jafnframt „óraunhæft“ að gera þær kröfur á slökkviliðið að það taki út húsnæði sem hafi verið breytt en ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir.
„Þessi skýrsla er mjög góð og margt hægt að læra af henni,“ segir hann og nefnir að vonandi eigi eigendur mannvirkja á höfuðborgarsvæðinu eftir að taka þetta til sín og fara eftir lögum og reglum.
Í skýrslunni er ákvarðanataka slökkviliðs gagnrýnd um að senda reykkafara inn í bygginguna í leit að tölvu. Hann féll milli hæða og var hætt kominn. „Eftir á að hyggja var það röng ákvörðun,“ segir Jón Viðar en tekur samkvæmt þeim upplýsingum sem þeir höfðu var ekki vitneskja um þær breytingar á húsnæðinu sem varð til þess að hann féll niður.
„Við erum orðin mun strangari á því hvenær við sendum menn inn í slíkar aðstæður,“ segir Jón Viðar. Hann segist hafa óttast um menn sína að störfum því ekkert var við eldinn ráðið.
„Þetta er í topp fimm,“ segir hann spurður um hversu krefjandi verkefnið hafi verið. Sá lærdómur sem slökkviliði taki einnig með sér er að bæta fjarskiptatæknina són á milli. „Núna þegar við förum í sambærileg útköll erum við fleiri talstöðvar okkar á milli,“ segir Jón Viðar.