Systir og unnusta Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf sporlaust í Dublin á Írlandi fyrir tíu mánuðum, hafa ráðið írskan einkaspæjara til að rannsaka hvarfið.
Anna Hildur Jónsdóttir, systir Jóns Þrastar, segir í samtali við The Irish Sun að fjölskyldan sé ákveðin í að leita svara. Önnu Hildi grunar að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað í tengslum við hvarf Jóns Þrastar þar sem hún telur það óhugsandi að hann hafi „flúið“ líf sitt á Íslandi.
Jón Þröstur fór til Dublin til að taka þátt í pókermóti í byrjun febrúar. Unnusta hans, Jana Guðjónsdóttir, var með í för og höfðu þau hugsað sér að skoða borgina saman að mótinu loknu. Rannsókn málsins hefur lítið sem ekkert miðað áfram frá því björgunarsveit kembdi leitarsvæði í borginni í byrjun mars og ábending barst um að Jón Þröstur hefði mögulega ferðast með leigubíl.
„Við verðum að komast að því hvað kom fyrir Jón. Börnin eiga rétt á að vita það, hugsanirnar og spurningarnar munu fylgja okkur alla ævi,“ segir Anna Hildur. Börn og stjúpbörn Jóns Þrastar eru fjögur talsins.
„Hann ætlaði sér svo margt, við vitum að hann flúði ekki,“ segir Anna Hildur en hún hefur á tilfinningunni að gengi Jóns Þrastar í pókerspilinu hafi ekki verið samkvæmt áætlun og mögulega hafi hann lent í slæmum félagsskap í kjölfarið. „Kannski vann hann of mikið og þeim líkaði það ekki. Ég held að eitthvað hafi komið fyrir hann. Það er mín tilfinning,“ segir Anna Hildur sem er ansi hrædd um að bróðir hennar sé látinn.
Írska lögreglan hefur rannsakað hvarf Jóns Þrastar frá upphafi en lítið hefur farið fyrir rannsókninni síðustu mánuði. Í vor opnaði fjölskylda hans heimasíðu þar sem finna má allar upplýsingar um Jón. Fjölskyldan er gjörsamlega ráðþrota vegna hvarfs Jóns Þrastar en hyggst ekki gefast upp.
Einkaspæjarinn Brady hefur áður rannsakað mannshvörf, til að mynda hvarf írsku stúlkunnar Amy Fitzpatrick sem hvarf á Spáni árið 2008, þá 15 ára. Hennar er enn leitað.
Brady hvetur almenning til að setja sig í samband við hann ef fólk hefur upplýsingar, sérstaklega ef um er að ræða upplýsingar sem fólk er hrætt við að segja lögregluyfirvöldum. Hægt sé að leita til hans í trúnaði með því að senda honum tölvupóst á liam@liambrady.ie.