Svandís vill seinka klukkunni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það eindregna skoðun sína að seinka skuli klukkunni á Íslandi, enda sé það lýðheilsumál. Í samtali við Vísi segir ráðherra að hún hafi framan af verið á báðum áttum með það hvort það væri ráð að seinka henni, en hafandi kynnt sér málið til hlítar sé hún sannfærð um ágæti þess.

Heilbrigðisráðuneytið hefur nú lokið athugun sinni, og eru örlög klukkubreytingarfrumvarpa nú í höndum forsætisráðherra, en breyta þarf lögum frá 1968 um tímareikning sé ætlunin að færa Ísland úr heimstímanum inn í tímabeltið GMT-1, fjær nágrannalöndunum.

Starfshópur, sem Óttar Proppé heilbrigðisráðherra skipaði um stillingu klukkunnar sjö dögum áður en hann lét af embætti, skilaði af sér tillögum fyrir réttu ári og voru niðurstöður hennar kynntar í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir. Kostirnir voru þrjár: óbreytt klukka (en fólk yrði hvatt til að fara fyrr að sofa), óbreytt klukka en fyrirtæki og stofnanir skyldu hefja starfsemi seinna á morgnana, og seinkun um eina stund. 1.586 umsagnir bárust í samráðsgáttinni frá almenningi, og hafa þær aldrei verið fleiri. Því er ljóst að um tilfinningamál er að ræða í hugum marga og skoðanir skiptar.

Sólin hefði sest klukkan 14:37 í höfuðborginni í dag, ef …
Sólin hefði sest klukkan 14:37 í höfuðborginni í dag, ef klukkan væri í óskatímabelti Svandísar. Á móti hefði hún komið upp klukkan 10:03. Seinrisulir hefðu þá getað vaknað í morgunbirtu. mbl.is/Árni Sæberg

Takast þar á sjónarmið þeirra sem telja forsvaranlegt að fórna klukkustund af síðdegisbirtu fyrir klukkustund af morgunbirtu, og hinna sem benda á að birtustundum á vökutíma myndi fækka til muna ef af breytingu yrði, þar sem stóran hluta árins myndi breytingin skila sér í að sólin kæmi upp klukkustund fyrr um miðja nótt, þegar fáir njóta, en engu að síður setjast klukkustund fyrr að kvöldi þegar fólk vakir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert