Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með mikinn viðbúnað í Úlfarsárdal í Reykjavík vegna atviks sem tilkynnt var lögreglu á fjórða tímanum í dag. Maður féll fram af svölum og hafa fimm einstaklingar verið handteknir í tengslum við málið að sögn lögreglu. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort maðurinn sé lífs eða liðinn.
„Málið er í rannsókn og lögregla er að vinna á vettvangi. Fimm aðilar hafa verið handteknir í tengslum við málið. Það er ekki hægt að segja til um tildrög á þessum tímapunkti,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Samkvæmt lögreglumanni á vettvangi var sérsveit ríkislögreglustjóra ekki kölluð til eins og áður hafði komið fram. Lögregla þurfti að brjóta upp lás íbúðarinnar á 2. hæð hússins til að komast þar inn.
Fréttin var uppfærð kl. 16.46.