Reyna að púsla atburðarásinni saman

Fimm menn voru handteknir í íbúð á 2. hæð og …
Fimm menn voru handteknir í íbúð á 2. hæð og hafa þeir allir réttarstöðu sakborninga í málinu, að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í miðlægri rannsóknardeild lögreglu. mbl.is/Alexander Gunnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu reynir nú að komast að því hvað nákvæmlega átti sér stað í fjölbýlishúsi við Skyggnisbraut í Úlfarsárholti í gær, þar sem erlendur karlmaður féll fram af svölum og lét lífið.

Fimm menn voru handteknir í íbúð á 2. hæð og hafa þeir allir réttarstöðu sakborninga í málinu, að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í miðlægri rannsóknardeild lögreglu.

Mennirnir fimm, sem eru allir af sama þjóðerni og sá sem lést, eru yfirheyrðir í dag og standa yfirheyrslurnar enn yfir. Lögregla hefur sömuleiðis rætt við vitni og framkvæmt vettvangsrannsókn til þess að reyna að púsla atburðarásinni saman.

„Við erum að reyna að athuga með hvaða hætti hann fellur þarna fram af,“ segir Margeir í samtali við blaðamann, en vill ekki gefa annað upp um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert