Vilja að ríkisendurskoðun skoði Lindarhvol

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

Tíu þingmenn hafa lagt fram á Alþingi beiðni um skýrslu frá embætti ríkisendurskoðanda þar sem gerð verði úttekt á starfsemi Lindarhvols ehf. Félagið var stofnað 2016 í þeim tilgangi að sjá um sölu á ákveðnum ríkiseignum. Einkum þeim sem féllu í skaut ríkisins vegna greiðslu á svonefndum stöðugleikaframlögum í tengslum við afnám gjaldeyrishafta.

Fram kemur í lögum um ríkisendurskoðun að embættinu beri að taka fyrir beiðni um skýrslu um einstök mál eða málaflokka sem falla undir starfssvið þess ef níu þingmenn óska þess með skýrslubeiðni í þingsal.

Talsverð gagnrýni hefur komið fram á starfsemi Lindarhvols, sem heyrt hefur undir fjármálaráðuneytið, og ásakanir komið fram um að leyndarhyggju hafi verið fyrir að fara í stað gagnsæis. Er í skýrslubeiðni þingmannanna farið fram á að varpað verði meðal annars ljósi á það hverjir hafi keypt umræddar eignir og hvað þeir hafi greitt fyrir þær.

„Þótt félagið hafi starfað sem einkahlutafélag var það í eigu ríkisins og hlutverk þess opinbers eðlis. Eignir ríkisins sem félaginu var falið að koma í verð voru umtalsverðar. Við stofnun var verðmæti þeirra metið um 60 milljarðar kr. Það skiptir miklu máli að vanda til verka við meðferð og sölu ríkiseigna,“ segir áfram en félagið hætti starfsemi 2018.

„Félagið keypti einnig þjónustu af einkaaðilum fyrir háar fjárhæðir í tengslum við verkefni sín. Það er mikilvægt að almenningur geti treyst því að ríkið verji fjármunum sínum á skynsamlegan hátt og að samningar við einkaaðila séu gerðir á málefnalegum grundvelli. Því er tilefni til að ríkisendurskoðandi geri úttekt á starfsemi félagsins.“

Fyrsti flutningsmaður er Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, en meðflutningsmenn samflokksmaður hennar Guðmundir Ingi Kristinsson, Björn Leví Gunnarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmenn Pírata, Helga Vala Helgadóttir, Oddný G. Harðardóttir og Guðjón S. Brjánsson, þingmenn Samfylkingarinnar, og Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert