Lindarhvolsskýrslan birt: „Ekki óeðlilegt í ljósi aðstæðna“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, birti skýrsluna í óþökk forsætisnefndar. …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, birti skýrsluna í óþökk forsætisnefndar. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, telur eðlilegt að hún sé nú birt opinberlega. Samsett/Eggert Jóhannesson/Kristinn Magnússon

Forsætisnefnd Alþingis hefur birt greinargerð Sigurðar Þórðarsonar setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols ehf. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir birtinguna ekki óeðlilega í ljósi aðstæðna.

Deilur um skýrsluna komust í hámæli í sumar þegar þingmaður Pírata, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, birti hana sjálf á grundvelli almannahagsmuna.

„Á haustfundi forsætisnefndar kom upp umræða um þessa birtingu og niðurstaðan var sú að það væri í ljósi aðstæðna ekki óeðlilegt að þetta skjal sem miklar deilur hafa staðið um í mörg ár, væri birt á vef Alþingis núna,“ segir Birgir og bætir við að skjalið hafi enda verið í opinberri umræðu í allt sumar.

Þingmenn geti ekki ákveðið sjálfir að birta gögn 

Ertu enn þá þeirrar skoðunar að birting skjalsins hafi verið ólögmæt?

„Ég er enn þá þeirrar skoðunar að einstakir þingmenn geti ekki tekið það upp hjá sjálfum sér að birta skjöl sem bundin eru trúnaði. Við höfðum lítillega rætt þetta í forsætisnefnd en erum þó á því stigi að skrifstofan er að senda forsætisnefndarmönnum skjöl sem þessu tengjast. Það er ekkert meira um það að segja á þessu stigi.“

Á ekki að hafa fordæmisgildi

Má búast við því að núna beri stjórnvöldum að birta trúnaðargögn eftir að þingmenn hafa sjálfir birt þau?

„Ég lít nú svo á að þetta mál hafi ekki og eigi ekki að hafa fordæmisgildi með neinum hætti. Hitt er annað mál að við höfum lent í því á undanförnum misserum í nokkrum tilvikum að gögn sem hafa komið til þingnefnda hafa farið í opinbera umræðu án þess að trúnaði hafi verið aflétt. Það verður að takast á við hvert tilvik fyrir sig eftir þeim aðstæðum sem þá eru fyrir hendi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert