Landsréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem er grunaður um aðild að andláti manns sem féll fram af svölum þriðju hæðar í Úlfarsárdal í desember.
Maðurinn var í síðustu viku úrskurðaður í gæsluvarðhald til 13. febrúar. Úrskurðinum var áfrýjað 18. janúar. Landsréttur ákvað að fella hann úr gildi en í stað þess banna manninum för frá Íslandi þann tíma sem gæsluvarðhaldinu var ætlað að gilda. Sá sem lést í Úlfarsárdal var Lithái á sextugsaldri.
Fram kemur í niðurstöðu Landsréttar að miðað við þau rannsóknarsóknargögn sem hafa verið lögð fram í málinu, einum samantektum af framburðum mannsins og vitna, sé nokkur óvissa um atburðarásina sem leiddi til dauða mannsins. Framburðum vitna beri ekki saman um þýðingarmikil atriði. Sóknaraðili hafi því ekki sýnt fram á það með gögnum að sterkur grunur sé fyrir hendi um að maðurinn hafi brotið gegn 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
„Í kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald kemur fram að varnaraðili sé erlendur ríkisborgari, hafi óveruleg tengsl við landið og eigi enga fjölskyldu hér á landi. Því sé talin hætta á að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Fyrir hendi er rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um hegningarlagabrot sem varðað geti fangelsisrefsingu,“ segir í niðurstöðunni og fellst Landsréttur á að maðurinn gæti reynt að komast úr landi.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem lesa má um í úrskurði héraðsdóms, kemur fram að maðurinn sé undir sterkum grun um brot gegn 211. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti allt að ævilöngu eða 16 ára fangelsi.
„Er það mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt m.t.t. almannahagsmuna og að óforsvaranlegt þyki að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leikur á að hann hafi framið svo alvarlegt brot líkt og honum sé gefið að sök.“