Kallaði Eyþór Arnalds „treggáfaðan“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég veit ekki hvaða treggáfa er hlaupin í oddvita Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn, á fundi borgarstjórnar rétt í þessu. Á fundinum fer nú fram umræða um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fallið verði frá skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur, og umræða um styttingu á þeim tíma sem opið er í leikskólum. 

Nokkuð heitar umræður hafa skapast á fundinum, eins og að ofan greinir, en Þórdís Lóa lét ummælin falla þegar þau Eyþór höfðu skipst á í ræðustól stutta stund og tekist á um tímalínuna í málinu. „Ég held að öll þessi tímalína sé skökk,“ sagði Eyþór í einni af ræðunum sem komu á undan, og sagði að sér virtist sem að ef málið héldi áfram án frestunar yrði „skellt í lás“ klukkan hálffimm hinn 1.apríl næstkomandi. Hvatti hann Viðreisn til að fresta málinu og sagði: „When in doubt bail out.“

Þórdís Lóa sagði að tillagan sem um ræddi tæki ekki gildi fyrr en hún væri samþykkt í borgarráði.

Eyþór Laxdal Arnalds.
Eyþór Laxdal Arnalds. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Vanalega ekki treggáfaður“

Eftir að hafa tekist á um þetta í stutta stund hóf Þórdís Lóa næsta svar sitt á ofannefndum orðum og bætti við: „Hann er nú vanalega ekki treggáfaður, og hefur greinilega ekki skilið að ef tillagan er ekki samþykkt í borgarráði þá tekur þessi tímalína 1. apríl ekki gildi.“

Nokkur kurr fór um salinn áður en forseti borgarstjórnar, Pawel Bartoszek, beindi því í kjölfarið til Þórdísar að tala um aðra borgarfulltrúa af virðingu. 

Þórdís Lóa tjáði sig um leikskólamálin á fésbókarsíðu sinni. Segir hún að óskað verði eftir umsögnum hagsmunasamtaka foreldra, líkt og Félags foreldra leikskólabarna og Heimilis og skóla, og hagsmunasamtaka starfsmanna leikskóla. Að loknu jafnréttismati muni ákvörðunin koma til kasta borgarráðs.

Útsendingu frá fundi borgarstjórnar má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert