„Lúalegt“ að ala á samviskubiti foreldra

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að í stað þess að skerða …
Kvenréttindafélag Íslands leggur til að í stað þess að skerða þjónustu leikskóla borgarinnar væri nærtækast ef Reykjavíkurborg og sveitarfélögin öll á landinu tækju höndum saman og hækkuðu laun alls starfsfólks í leikskólunum, sem langflest er konur, til muna og borguðu þeim verðskulduð laun. mbl.is/Hari

Kvenréttindafélag Íslands mótmælir harðlega þeirri ákvörðun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar að mæla með styttingu starfstíma leikskóla borgarinnar, að þeim verði lokað kl. 16.30 í stað kl. 17.00.

Í opnu bréfi til borgarráðs minnir félagið á þá staðreynd að öflug starfsemi leikskóla sé forsenda þess að Ísland hafi náð svo langt sem raun ber vitni í að tryggja jafnrétti kynjanna. „Jafnrétti kvenna og karla verður aldrei náð fyrr en konur hafa fjárhagslegt sjálfstæði, og konur ná ekki fjárhagslegu sjálfstæði ef þær eru bundnar inni á heimilum í ólaunuðu starfi. Full þátttaka kvenna á íslenskum vinnumarkaði er ekki aðeins forsenda fyrir kvenfrelsi, heldur einnig fyrir hagsæld þjóðarinnar þar sem samfélagið reiðir sig á að við öll tökum virkan þátt í atvinnulífinu og leggjum okkar af mörkum,“ segir m.a. í bréfinu. 

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að í stað þess að skerða þjónustu leikskóla borgarinnar væri nærtækast ef Reykjavíkurborg og sveitarfélögin öll á landinu tækju höndum saman og hækkuðu laun alls starfsfólks í leikskólunum, sem langflest er konur, til muna og borguðu þeim verðskulduð laun.

Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands. Félagið mótmælir harðlega þeirri ákvörðun …
Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands. Félagið mótmælir harðlega þeirri ákvörðun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar að mæla með styttingu starfstíma leikskóla borgarinnar og hefur sent borgarráði opið bréf. Ljósmynd/Aðsend

Félagið bendir á að útivinnandi foreldrar vinni flestir fullan vinnudag til að geta lagt sitt til samfélagsins og í mörgum tilfellum til þess að eiga til hnífs og skeiðar. Foreldrar séu alla jafna að gera sitt allra besta til að láta púsluspilið ganga upp með það að markmiði að geta varið sem mestum gæðatíma með börnum sínum.  „Að ala á samviskubiti foreldra varðandi lengd þess tíma sem börnin eru í leikskóla á hverjum degi er lúalegt bragð sem beinist meira að mæðrum en feðrum, þar sem að það virðist enn vera svo að þegar taka þarf ákvörðun um að skera niður vinnu til að sinna börnum eru það mæður í flestum tilvikum sem taka það á sig með tilheyrandi tekjuskerðingu,“ segir í bréfinu. 

Þá telur Kvenréttindafélag Íslands ákvörðun um styttingu starfstíma leikskóla í borginni líklega til að bitna mun meira á konum en á körlum og vera skref afturábak í jafnréttisbaráttunni. 

Kvenréttindafélag Íslands hvetur borgarráð til að hafna tillögunni á fundi sínum í vikunni og ræða í kjölfarið hvernig Reykjavíkurborg geti unnið að raunverulegum kjarabótum og bættu starfsumhverfi fyrir starfsfólk í leikskólum borgarinnar og á sama tíma brúað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar.

Lengri útgáfu af opnu bréfi Kvenréttindafélags Íslands til borgarráðs má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka