Innri endurskoðun Reykjavíkur telur að alvarlegur misbrestur hafi orðið í upplýsingagjöf framkvæmdastjóra Sorpu til stjórnar félagsins vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi.
Sá misbrestur varð þegar verkfræðistofan Mannvit lagði fram nýja áætlun um bygginguna aðeins mánuði eftir að fimm ára áætlun Sorpu 2019—2023 var samþykkt af stjórn í október 2018. Áætlun Mannvits var hálfum milljarði hærri en stjórn hafði ráðgert.
Þessi nýja áætlun kom ekki inn á borð stjórnar og var hún því ekki upplýst um hana. Þetta kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á starfsemi Sorpu. Hún var kynnt á fundi stjórnar félagsins í dag og var í kjölfarið ákveðið að framkvæmdastjóri Sorpu skyldi víkja á meðan mál hans væri til skoðunar hjá stjórninni.
Skýrslan fjallar um ástæður frávika sem urðu á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi. Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum voru mistök við fjárfestingaáætlun og hærri framkvæmdakostnaður orsakir þess að framkvæmdastjóri Sorpu lagði til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun Sorpu til næstu fjögurra ára.
„Að mati Innri endurskoðunar var upplýsingagjöf er varðar tækjakaup í Gufunesi ófullnægjandi og á köflum villandi þar sem fjárhæðir í greinargerð með rekstraráætlun eru hvorki rekjanlegar né afstemmanlegar við sjóðstreymi“, segir í skýrslunni.
„Umfjöllun er um tækjakaupin í greinargerðum en ekki nefndar fjárhæðir fyrr en í greinargerð með áætlun 2019-2023, 500 m.kr., á sama tíma og gleymist að setja tækjakaupin í sjálfa áætlunina. Þegar í ljós kom að kostnaður vegna tækjakaupa hafði ekki ratað inn í áætlun 2019, leituðu stjórnendur SORPU leiða til að taka tækin á rekstrarleigu, eins og kemur fram í minnisblaði framkvæmdastjóra dags. 24. júní 2019.“
Í skýrslunni kemur sömuleiðis fram að sú staðreynd að stýrihópur eigendavettvangs og rýnihópur stjórnar Sorpu reyndust lítt virkir hafi haft veruleg áhrif á möguleika þeirra til að sinna eftirlitshlutverki sínu.
„Verkefni og hlutverk rýnihóps SORPU var vel skilgreint en hópurinn sinnti ekki því faglega og fjárhagslega eftirliti sem lagt var upp með,“ segir í skýrslunni. Innri endurskoðun telur að framkvæmdastjóri Sorpu hefði átt að upplýsa nýskipaða stjórn um tilvist hópsins þegar stjórnin tók við sumarið 2018.
Störf stjórnar Sorpu eru einnig tekin fyrir í skýrslu innri endurskoðunar. Leggur hún til að settar verði skýrar hæfisreglur um þá sem kosnir eru til stjórnarstarfa og er sagt í skýrslunni að taka skuli mið af því sjónarmiði að í stjórn ættu að sitja einstaklingar sem eru óháðir eigendum Sorpu.
Sorpa er rekin sem byggðasamlag sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og er hver og einn stjórnarmaður fulltrúi síns sveitarfélags. Allir formenn stjórnar eru bæjar- eða borgarfulltrúar þess sveitarfélags sem þau sitja í stjórn fyrir.
„Innri endurskoðun leggur til að við endurskoðun stofnsamnings verði 4. gr. hans um að stjórnarmenn skuli vera aðalmenn í sveitarstjórn eða framkvæmdastjóri sveitarfélags breytt. Jafnframt er lagt til að kjörtímabil stjórnar verði hið sama og kjörtímabil sveitarstjórna, eða fjögur ár.“
Stjórn Sorpu hefur gefið það út að hún muni ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Þrátt fyrir það sagði Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu, í kvöldfréttum Stöðvar tvö að skýrslan væri áfellisdómur.
„Almennt má segja að það hafi verið mikil frávik í áætlanagerð og eftirliti og yfirsýn með framkvæmdinni og ég held að þessi skýrsla, þó að hún sé vissulega áfellisdómur, séu mikil tækifæri og ábendingar sem í henni felast,“ sagði Birkir.