Jafnréttismat á tillögu um breyttan starfstíma í leikskólum borgarinnar, sem borgarráð samþykkti á fundi í gær, mun væntanlega fresta gildistíma breytinganna, komi til þeirra. Þetta staðfestir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, í samtali við mbl.is. Meirihluti ráðsins samþykkti það fyrir skömmu að stytta starfstíma leikskólanna um 30 mínútur, úr 17 í 16:30, og til stóð að breytingin tæki gildi 1. apríl næstkomandi.
Ákvörðun um að stytta starfstíma leikskólanna hefur vakið mikil viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð, en margir telja að styttingin hafi áhrif á viðkvæman hóp sem muni ekki hafa tök á að sækja börnin sín á tilsettum tíma. Þar á meðal einstæða foreldra sem hafa lítið bakland og láglaunafólk með fasta viðveru og ósveigjanlegan vinnutíma.
Markmiðið með jafnréttismatinu, að sögn Skúla, er meðal annars að fá fram skoðanir foreldra, sérstaklega þeirra sem eru með dvalarsamninga eftir klukkan 16:30, og greina aðstæður þeirra. Þá verður leitast við að greina þann hóp sem á almennt erfitt með að mæta breyttum starfstíma. „Jafnréttismatið byggir ekki síst á samtölum við foreldra á hverjum einasta leikskóla,“ segir hann.
„Það taka allir þetta jafnréttismat mjög alvarlega og menn vilja raunverulega fá til baka upplýsingar um það hvort þetta sé breyting sem muni hafa veruleg áhrif á einhverja hópa og þá hverja. Eða er það þannig, eins og okkar fólk inni á leikskólunum, sem þekkir auðvitað best til, hefur haldið fram, að þetta sé ekki líklegt til að valda þeim hópum vandræðum sem eru í viðkvæmustu stöðunni.“
Skúli segir flesta þá sem keypt hafa dvalartímann eftir klukkan 16:30 gifta eða í sambúð og að sá hópur virðist frekar hafa keypt tímann til að hafa hann uppi í erminni heldur en til að nota hann reglulega.
„Við sjáum að 73 prósent af þeim sem kaupa þennan tíma eru giftir eða í sambúð þannig að innan við 30 prósent eru einstæðir foreldrar, en það er umtalsverður hópur. Aðalmálið er hvernig samsetningin á þeim er sem raunverulega nýta tímann. Þau gögn liggja ekki fyrir núna og það er það sem jafnréttismatið mun leiða í ljós. Það þarf í raun að telja hvert einasta barn inni í þessum 63 leikskólum til að fá nákvæma mynd af því hvernig nýtingin er. Þá í góðu samráði við foreldra og samtölum milli leikskólastjóra og foreldra.“
Skúli segir jafnréttismatinu ekki hafa verið gefinn ákveðinn tímarammi en gerir ráð fyrir því að vinnan við það taki nokkrar vikur. „Vinnslan á þessu er byrjuð. Við byrjuðum í raun að safna gögnunum inni í stýrihópnum áður en málið fór til borgarráðs. Það eru allir mjög einhuga um að þetta sé góð leið til að fá frekari upplýsingar um hvaða áhrif breytingin mun hafa.“