Vill að stjórn SORPU segi af sér

Fulltrúi Flokks fólksins í borgarráði Reykjavíkur, Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi, lagði fram tillögu á fundi ráðsins í gær um að stjórnarmaður borgarinnar viki úr stjórninni í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um málefni fyrirtækisins.

Fram kemur í tillögunni það álit að í raun ætti öll stjórn SORPU að segja af sér. „Henni hefur mistekist hlutverk sitt. Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snýr nú að stjórnarháttum SORPU.“

Málið snýst um framúrkeyrslu vegna áætlaðs framkvæmdakostnaðar við byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi, en framkvæmdastjórn lagði til að fyrirtækið fengi 1,4 milljarða króna viðbótarframlag vegna þess.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram kemur í tillögunni að í ljósi áfellisdóms innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar yfir framgöngu stjórnar SORPU í skýrslunni vegna málsins, einkum vegna eftirlitshlutverks hennar, hljóti stjórnarmaður borgarinnar að víkja úr stjórninni.

„Það er varla hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdastjórann. Ábyrgðin hlýtur fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn SORPU reynir að fría sig ábyrgð m.a. með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar.“

Afgreiðslu málsins var frestað á fundi borgarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert