Lögmenn sátu fyrir ferðafólkinu sem lenti í hrakningum við rætur Langjökuls í byrjun árs og biðu þeirra á Gullfosskaffi og aftur þar sem þeir komu með rútum í bæinn.
Þetta segir Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, en hann var gestur í Kastljósþætti kvöldsins. Þá segir hann lögmenn hafa haft samband við Landsbjörg til að fá farþegalista yfir þá sem voru í ferðinni. „Sem við náttúrulega veittum þeim ekki. Mér finnst þetta leiðindaþróun.“
Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi, sem einnig var gestur í Kastljósi, tók í sama streng og Þór og sagði þróunina ekki æskilega.
„Það er eitt af hlutverkum okkar að hlúa að þolendum í svona og verja fólk fyrir áreiti, bæði svona áreiti og áreiti frá fjölmiðlum [...] Allt áreiti þegar fólk hefur lent í áföllum eða alvarlegum atburðum getur haft afleiðingar.“