Breytingar á stofnsamningi Sorpu samþykktar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Hallur Már

Á fundi borgarstjórnar í dag samþykktu fulltrúar meirihluta borgarstjórnar, auk fulltrúa Sjálfstæðisflokks, með öllum greiddum atkvæðum breytingartillögu meirihlutans við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingar á stofnsamningi Sorpu bs.

Með tillögunni var samþykkt að beina því til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna Sorpu bs., Strætó bs. og slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Horft verði bæði til inntaks stofnsamninga og inntaks og framkvæmdar eigendastefnu byggðasamlaganna, að því er segir í tilkynningu.

Tilgangur endurskoðunarinnar verði að tryggja hagsmuni og aðkomu sveitarfélaganna sem eigenda þeirra og ábyrgðaraðila og skerpa hlutverk, umboð og ábyrgð stjórna byggðasamlaganna. Mikilvægt sé að leitað verði sjónarmiða hjá breiðum hópi sveitarstjórnarfólks á höfuðborgarsvæðinu og stjórnum byggðasamlaganna.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Endurkoðun eigendastefnu mikilvæg

„Til framtíðar þurfum við sérstaklega að skoða hvernig við getum almennt bætt stjórnarhætti og eftirlitsumhverfi til að tryggja almannahagsmuni. Það getum við m.a. gert með því að endurskoða eigendastefnu okkar gagnvart byggðasamlögunum, líkt og við erum nú þegar að gera í þverpólitísku samstarfi við að móta nýja eigandastefnu Reykjavíkurborgar og nýja eigendastefnu í stjórn Faxaflóahafna. Sú vinna sem þar fer fram er gríðarlega mikilvægt verkefni og getur verið ákveðinn grunnur í því sem leggja þarf til í starfi SSH,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sem mælti fyrir breytingatillögunni.

„Við þá endurskoðun er í mörg horn að líta, eins og hvort setja þurfi skýrar hæfisreglur um þá sem kosnir eru til stjórnarstarfa, eins og Innri endurskoðun leggur til. Einnig er sjálfsagt að horfa til þess, í samræmi við ábendingar innri endurskoðunar, að skoða hlut stjórnarmanna Reykjavíkurborgar í samræmi við íbúafjölda og meirihlutaeign.“

Bókun meirihluta borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

„Breytingartillagan gerir ráð fyrir að stjórn SSH fari yfir skipulag og stjórnarhætti allra byggðasamlaganna til þess að skerpa ábyrgðarhlutverk, tryggja hagsmuni eigenda og auka skilvirkni. Í þeirri vinnu er mikilvægt að líta til þróunar góðra stjórnarhátta og rýna fengna reynslu af eigendastefnum sem settar voru 2012. Nauðsynlegt er að einfalda, aðlaga og samræma bæði stofnsamninga og eigendastefnur byggðasamlaganna að nútíma kröfum um skilvirkan rekstur og góða stjórnarhætti, þannig að pólitískt kjörnir fulltrúar geti axlað ábyrgð sem eigendur á rekstri þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert