Ekki áhersla á lykt heldur „lyktir þessa skítamáls“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, sagði á borgarstjórnarfundi að það hallaði verulega á meirihlutann í borgarstjórn vegna framúrkeyrslu Sorpu og að það gengi ekki að borgin hefði þar aðeins einn af sex stjórnarmönnum þrátt fyrir að hún bæri meirihlutaábyrgð.

Hann minntist á stýrihóp sem var myndaður árið 2013. Hann hefði átt að annast eftirlit með framkvæmdum við gas- og jarðgerðarstöðina á Álfsnesi en hefði gufað upp. Hópurinn hefði átt að koma mánaðarlega saman en gerði það einungis þrisvar sinnum.

Lyktar-stýrihópur

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði stýrihópinn hafa verið settan saman að frumkvæði Mosfellsbæjar vegna kvartana um lykt sem stafaði af urðunarstaðnum á Álfsnesi. Á fyrsta fundi á milli stýrihópsins og stjórnar Sorpu bs. hefði verið talað um að stjórn Sorpu færi með framkvæmdirnar á Álfsnesi en að stýrihópurinn, þ.e. samráðshópur eigenda, fjallaði um lyktina. Þetta hefði verið svokallaður lyktar-stýrihópur. Hugsanlega hefði ekki verið greint nógu skýrt frá þessu í skýrslu Innri endurskoðunar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Skattfé urðað í stórum stíl

Eyþór sagði málsvörn Dags kostulega og vitnaði í skýrsluna um hlutverk stýrihópsins. „Áhersla Innri endurskoðunar er ekki á lyktina heldur á lyktir þessa skítamáls, að hér hafi þurft að urða skattfé í stórum stíl.“ Stýrihópurinn hefði átt að taka á eftirliti en ekki rækt hlutverk sitt og ekki farið eftir eigin ákvörðunum. Framúrkeyrslan væri ljós og að allir bentu á alla.

Dagur sagði Eyþór snúa út úr málinu og vitnaði í fundargerðir þar sem fram kæmi að hlutverk stýrihópsins hefði verið að fjalla um atriði sem lytu að lykt. „Það sem stendur upp úr er að stjórnin [stjórn Sorpu bs.] fékk ekki réttar upplýsingar um framúrkeyrsluna en tók á málum um leið og þær lágu fyrir.“

Eyþór steig þá í pontu og sagði: „Eitt er víst að það fór fram úr og það klikkaði allt sem klikkað gat.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert