Neyðarástandi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli um klukkan hálffjögur í dag þegar farþegaþotu Icelandair, sem var að koma frá Berlín, hlekktist á eftir lendingu er hjólabúnaður hennar brotnaði. 166 voru um borð, 160 farþegar og 6 manna áhöfn.
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair urðu engin slys á fólki en unnið er að því að koma fólki frá borði. Samhæfingarstöð almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í Skógarhlíð var virkjuð með fullu viðbragði vegna atviksins.
Samkvæmt heimildum mbl.is var lendingin ansi harkaleg, en viðbragðs- og áfallateymi hafa verið virkjuð og haft hefur verið samband við rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúa Isavia, segir vélina enn vera á flugbrautinni, en verið að bíða eftir því að fá stigabíla og rútur til að hleypa fólki frá borði. Hin flugbrautin er þó í notkun á meðan.