Rannsókn á hjólabúnaði flugvélar Icelandair sem gaf sig við lendingu í gær er á frumstigi. Flugvélin stendur enn á flugbrautinni þar sem rannsóknarnefnd samgönguslysa er að störfum. Unnið er að því að koma vélinni af brautinni og inn í flugskýli þar sem hún verður rannsökuð frekar.
„Við erum að vinna á vettvangi og vinnum að því að lyfta vélinni upp svo hægt sé að koma hjólabúnaði aftur undir hana og draga hana af vettvangi og inn í flugskýli,“ segir Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, í samtali við mbl.is. Talverðar skemmdir eru á vélinni.
Vonir standa til að hægt verði að draga hana af vettvangi í dag. Ragnar segir ómögulegt að segja til um hvenær nákvæmlega það takist enda ekki oft sem þurft hefur að grípa til slíkra aðgerða. „Þetta verður að taka þann tíma sem það tekur en þetta gengur vel,“ segir Ragnar.
Spurður um tildrög atviksins segir hann of snemmt að segja til um þau, en ítrekar að fyrir öllu sé að enginn hafi slasast.
„Þetta hefur ekki áhrif á önnur flug á flugvellinum. Það voru örlitlar seinkanir á flugi í morgun en það var vegna þess að vélar fóru seinna af stað í gær því ekki var hægt að tengja landganga við vélarnar,“ segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia.
Um 160 farþegar voru um borð í vélinni og 6 manns voru í áhöfninni þegar hjólabúnaður hægra megin gaf sig. Farþegum var öllum boðin áfallahjálp Rauða krossins þegar þeir stigu frá borði.