„Það er ekkert að frétta úti, það eru fáar eða engar ábendingar að berast. Þetta er bara í pattstöðu. Það hefur ekki neitt breyst, því miður,“ segir Davíð Karl Wiium, bróðir Jóns Þrastar Jónssonar. Í dag, 9. febrúar, er eitt ár liðið frá því Jón Þröstur hvarf sporlaust í Dublin á Írlandi. Davíð segir að árið hafi verið einstaklega erfitt, ekki síst vegna óvissunnar um örlög bróður hans, en fjölskyldan hyggist ekki gefast upp.
Jón Þröstur fór til Dublin til að taka þátt í pókermóti í byrjun febrúar. Unnusta hans, Jana Guðjónsdóttir, var með í för og höfðu þau hugsað sér að skoða borgina saman að mótinu loknu. Rannsókn málsins hefur lítið sem ekkert miðað áfram frá því björgunarsveit kembdi leitarsvæði í borginni í byrjun mars og ábending barst um að Jón Þröstur hefði mögulega ferðast með leigubíl.
Tvær vikur eru síðan nokkrir úr fjölskyldunni voru í Dublin og töluðu við írsku lögregluna. „Þar er það nákvæmlega sama uppi á teningnum og var, þannig að tíminn bara líður. Málið er opið en það er ekkert nýtt að frétta,“ segir Davíð.
Fjölskyldan hefur ekkert verið í sambandi við lögregluna hér heima síðan í vor, en þá funduðu fulltrúar rannsóknardeildar lögreglunnar með írskum lögregluyfirvöldum í Dublin. „Tíminn bara líður og það er spurning með næstu skref, það veit eiginlega enginn hver þau verða,“ segir Davíð.
Í byrjun desember réðu systir og unnusta Jóns Þrastar írskan einkaspæjara til að rannsaka hvarfið. Davíð segir að hann sé enn að störfum og einhver vinna hafi átt sér stað. Hún hafi þó engu skilað. „Að minnsta kosti engum mælanlegum árangri, en svo mikið veit ég að ég efast ekkert um að hann sé að vinna vinnuna sína, en það er voðalega lítið nýtt.“
Fjölskyldan hefur verið með annan fótinn í Dublin frá hvarfinu og í júní flutti Daníel Örn Wiium, bróðir Jóns Þrastar, tímabundið til Dublin. Hann er nú fluttur aftur heim og hefur viðvera fjölskyldunnar í borginni minnkað til muna. „Núna eru þetta bara óregluleg samskipti við lögregluna, enda hefur það ekki mikið upp á sig eins og þetta hefur þróast að hanga úti, ekki nema eitthvað breytist auðvitað.“
Davíð segir það einstaklingsbundið hvernig fjölskyldan hefur tekist á við hvarf Jóns Þrastar. „Almennt held ég að þetta sé allt í rétta átt. Miðað við aðstæður og óvissuna held ég að fólk sé í bata, en það er misjafnt hvernig fólk tekst á við þetta.“
„Við þurfum öll að fá málalok en á sama tíma verðum við að sætta okkur við að það er eitthvað sem getur tekið tíma. Það er mikilvægt að festast ekki í þráhyggju eða sorg en þetta hangir yfir okkur sem er ekki gott.“
Anna Hildur Jónsdóttir, systir Jóns Þrastar, sagði í samtali við The Irish Sun í lok síðasta árs að hún væri ansi hrædd um að bróðir hennar væri látinn og hana gruni að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.
Davíð vill ekki fullyrða neitt og segist hvorki hafa kenningar eða tilfinningu fyrir því sem gerðist. „Á meðan maður veit ekki neitt held ég að það sé ekki hollt, alla vega fyrir mig persónulega, að teikna upp kenningar eða aðstæður sem ég veit ekki einu sinni hvort voru til staðar. Fyrir mitt leyti snýst þetta um að bíða og sjá. Það sem gerðist gerðist og því verður ekki breytt. En hvað það var hef ég ekki hugmynd um.“
Davíð segir að dagsetningin, 9. febrúar, þýði ekkert sérstakt fyrir fjölskylduna þótt vissulega sé það táknrænt að eitt ár sé liðið frá hvarfinu. „Þegar það er svona langt um liðið skiptir ekki hvort það er eitt ár, tíu mánuðir eða eitt og hálft ár liðið, það sem við gerum er það sama og við höfum verið að gera, að halda sambandi og vera góð við hvert annað. Og hugsa hlýlega til Jóns.“