Hreyflar flugvélarinnar TF-FIA, hverrar lendingarbúnaður brotnaði skömmu eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku, eru í eigu Icelandair. Þekkt er að flugfélög leigi hreyfla en upplýsingafulltrúi Icelandair staðfestir í skriflegu svari til mbl.is að svo hafi ekki verið tilfellið með hreyfla TF-FIA.
Enn liggur ekkert fyrir um mögulegt fjártjón Icelandair vegna atviksins en ljóst er að skemmdir urðu á vélinni til viðbótar skemmdum á lendingarbúnaðinum sem brotnaði. Vélin lagðist á hliðina – hreyfilinn og vænginn – eftir að hjólabúnaðurinn gaf sig.
Samkvæmt svarinu nær vátrygging félagsins yfir atvik af þessu tagi og Icelandair því tryggt fyrir tjóninu fyrir utan sjálfsábyrgð fyrirtækisins. Lendingarbúnaðurinn sem gaf sig var nýr en skipt hafði verið um hann í nóvember í reglubundnu eftirliti.
Icelandair hefur verið í sambandi við fyrirtækið sem skipti um búnaðinn sem og alla aðila sem eiga hlut að máli, segir í svari frá fyrirtækinu.