Spáð er kólnandi veðri næstu daga og norðanátt en með henni berst „hrollkalt heimskautaloft“ yfir landið, líkt og segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Í dag má búast við norðankalda eða -strekkingi með éljagangi norðanlands, en væntanlega léttir til sunnan heiða. Kuldakastið nær hámarki aðfaranótt fimmtudags og framan af fimmtudegi og þá verður frostið á landinu allvíða á bilinu 10 til 20 stig.
Að kuldakastinu loknu er útlit fyrir stór tíðindi í veðrinu á föstudag. „Þá er óveður af verri gerðinni í vændum því spár gera ráð fyrir að sérlega djúp lægð nálgist landið úr suðvestri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. Búast má við austlægum stormi, roki eða ofsaveðri, hvassast sunnan til á landinu framan af föstudegi. Víða snjókoma eða slydda, úrkomumest sunnan- og austanlands.
Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið og tekur hún gildi klukkan þrjú aðfaranótt föstudags og til klukkan níu um kvöldið.
Með óveðrinu fylgja hlýindi, rigning á láglendi um landið sunnanvert og við austurströndina síðdegis með hita 1 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan. Talsvert hægari vindur á landinu um kvöldið.
Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar á föstudaginn og í raun verður ekkert ferðaveður. Einnig eru líkur á foktjóni, sér í lagi sunnan til á landinu. Fólki er bent á að sýna varkárni til að fyrirbyggja slys og festa lausamuni eins og frekast er kostur. Þá er bent á að búast má við hárri sjávarstöðu vegna áhlaðanda.