Appelsínugular viðvaranir um land allt

Appelsínugul viðvörun verður í gildi um allt land á hádegi …
Appelsínugul viðvörun verður í gildi um allt land á hádegi á föstudaginn. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular viðvaranir vegna austanvonskuveðurs á landinu öllu á föstudag, er sérlega djúp lægð gengur yfir landið.

Lægðin mun fyrst hafa áhrif á sunnanverðu landinu aðfaranótt föstudags, en síðan um allt land er líða fer á morguninn og fram eftir degi.

Búast má við víðtækum samgöngutruflunum á landinu og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Við suðurströnd landsins má búast við því að vindhviður við fjöll verði hættulegar og geti farið yfir 50 m/s.

Hætta er á foktjóni í öllum landshlutum og Veðurstofan bendir fólki á að ganga frá lausamunum og sýna varkárni. Víða um land verður snjóhríð, auk þess sem talsverður áhlaðandi, hækkuð sjávarstaða og mikil ölduhæð fylgir veðrinu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert