Mjög kalt er á landinu og mesta frostið í nótt mældist á Sandskeiði 15,2 stig. Í nótt og fyrramálið gæti 20 stiga frost eða meira mælst á einhverjum stöðum. Spár fyrir illviðri föstudagsins eru lítið breyttar og verða smám saman líklegri til að rætast eftir því sem nær dregur.
„Nú er kalt á landinu og mest frost í nótt mældist 16,4 stig á Sandskeiði, 15,2 stig á Húsafelli, 14,1 stig á Grímsstöðum á Fjöllum og 13,7 stig í Víðidal við reiðvöll Hestamannafélagsins Fáks.
Í dag er útlit fyrir norðlæga átt og vindhraði yfirleitt innan við 10 m/s. Það má búast við dálitlum éljum á norðanverðu landinu og einnig eru stöku él á sveimi við suðurströndina. Annars staðar á landinu er ekki útlit fyrir úrkomu. Það herðir enn á frosti í kvöld. Í nótt og fyrramálið gæti 20 stiga frost eða meira mælst á einhverjum stöðum, líklegast er að það gerist inn til landsins þar sem lægðir eru í landslagi. Seint á morgun fer síðan að hvessa úr austri.
Þegar þetta er skrifað snemma á miðvikudagsmorgni er lægðin sem á að valda óveðrinu stödd suðvestur af Nýfundnalandi og er skýjakerfi hennar greinilegt á gervitunglamyndum. Óveðurslægðin fer til austurs út á Atlantshaf í dag og dýpkar ört, en á morgun tekur hún stefnu til norðurs og nálgast okkur. Búist er við að óveðrið hafi náð hámarki á Íslandi á föstudagsmorgun. Viðvaranir vegna veðursins verða uppfærðar í dag eftir því sem nýjar og nákvæmari spár berast,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið frá því klukkan þrjú aðfaranótt föstudags til klukkan 21 á föstudagskvöldið. „Spár gera ráð fyrir að sérlega djúp lægð nálgist landið úr suðvestri (þrýstingi í lægðarmiðju er spáð niður í 930 hPa).
Búast má við austlægum stormi, roki eða ofsaveðri, hvassast sunnan til á landinu framan af degi. Víða snjókoma eða slydda, úrkomumest sunnan- og austanlands. Hlýnandi veður, rigning á láglendi um landið sunnanvert og við austurströndina síðdegis með hita 1 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan. Talsvert hægari vindur á landinu um kvöldið.
Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar, ekkert ferðveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Líkur eru á foktjóni, sér í lagi sunnan til á landinu. Fólki er bent á að sýna varkárni til að fyrirbyggja slys og festa lausamuni eins og frekast er kostur. Einnig má búast við hárri sjávarstöðu vegna áhlaðanda.“
Norðlæg átt 3-10 m/s. Dálítil él norðanlands og stöku él við suðausturströndina, en bjart með köflum á suðvestanverðu landinu. Frost 3 til 13 stig í dag og herðir á frosti í nótt.
Vaxandi austlæg átt á Suður- og Vesturlandi síðdegis á morgun, þykknar upp með éljum við ströndina og dregur úr frosti.
Á fimmtudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og víða léttskýjað, en stöku él við norðurströndina. Frost 6 til 20 stig, kaldast í innsveitum. Vaxandi suðaustanátt suðvestan til á landinu síðdegis, þykknar upp með éljum við ströndina og dregur úr frosti.
Á föstudag:
Austanstormur, rok eða ofsaveður, hvassast sunnan til á landinu framan af degi. Víða slydda eða snjókoma, úrkomumest sunnan- og austanlands. Hlýnandi veður, rigning á láglendi um landið sunnanvert og við austurströndina undir kvöld með hita 1 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan. Talsvert hægari vindur víðast hvar á landinu um kvöldið.
Á laugardag:
Gengur í allhvassa eða hvassa austanátt með rigningu eða slyddu, einkum sunnan og austan til á landinu. Hiti 1 til 6 stig síðdegis.
Á sunnudag:
Norðaustlæg átt með rigningu eða slyddu norðan- og austanlands og snjókomu um kvöldið. Úrkomulítið sunnan heiða. Heldur kólnandi.
Á mánudag:
Norðanátt og snjókoma eða él á Norður- og Austurlandi, en bjartviðri um landið sunnan- og vestanvert. Víða vægt frost.
Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt með dálitlum éljum, en léttskýjað fyrir norðan og austan. Hiti breytist lítið.