Bíður af sér veðrið á hálendinu

Lukasz gistir ekki í þessu tjaldi í nótt.
Lukasz gistir ekki í þessu tjaldi í nótt. Ljósmynd/Lukasz Supergan

„Ég er alveg öruggur,“ segir göngugarpurinn Lukasz Supergan við mbl.is. Hann er á ferð á tveimur jafnfljótum og skíðum yfir Ísland, frá austri til vesturs, alls 750 kílómetra leið. Vegna veðurviðvarana verður morgundagurinn nýttur til að safna kröftum.

Lukasz lagði af stað frá Seyðisfirði 27. janúar og stefnir á að komast á Hellissand á Snæfellsnesi í byrjun næsta mánaðar. Hann hefur komið sér fyrir í skála í Laugafelli á hálendinu þar sem beðið verður þangað til veður morgundagsins gengur yfir.

Rauðar viðvaranir eru í gildi á höfuðborg­ar­svæðinu, Suður­landi, Faxa­flóa og Suðaust­ur­landi en viðvaranir eru appelsínugular í öðrum landshlutum. Veður fer versnandi í öllum landshlutum í kvöld og verður að mestu leyti gengið niður á sólarhring.

Lukasz segir að fjölmargir samlandar hans frá Póllandi og íslenskir félagar hafi bent honum á væntanlegan veðurofsa. Þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af honum.

Göngugarpurinn á skíðum.
Göngugarpurinn á skíðum. Ljósmynd/Lukasz Supergan

„Ég reyndi að undirbúa mig eins vel og kostur er,“ segir Lukasz um sjálft ferðalagið sem hljómar ef til vill hálf klikkað. Hann kveðst hafa mikla reynslu af fjallgöngu og útivist almennt og reynir að ferðast um 30 kílómetra á dag.

Áhugasamir geta fylgst með ferðalaginu á Facebook-síðu Lukasz. Þar lýsir hann aðstæðum við gönguna í miklum kulda og fegurðinni sem blasi við honum, auk veðursins sem er síbreytilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert