Öllu innanlandsflugi bæði með Air Iceland Connect og Flugfélaginu Erni hefur verið aflýst á morgun vegna óveðurs. Farþegum sem áttu bókað flug á morgun með Air Iceland Connect hefur verið boðið að færa til flugið. Eitt aukaflug var sett á áætlun í dag og var það til Akureyrar.
„Við tökum stöðuna eftir hádegi á morgun hvernig við stillum upp fluginu um helgina,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect.
Útlit er fyrir að fullt verði í aukaflugið til Akureyrar í dag. Árni segir að allt hafi verið gert til að bæta við flugi og flugsætum en það séu takmörk fyrir því hvað hægt sé að gera á þéttskipuðum dögum.
Óveður hefur raskað flugi í óvenjumarga daga á þessu ári miðað við síðustu ár. „Þetta eru orðin ansi mörg flug sem hafa fallið niður. Það er meira á þessu ári en við sjáum venjulega. Janúar var sérstaklega slæmur,“ segir Árni.
Spurður hvort flugfélagið þurfi að grípa til sérstakra aðgerða og varúðarráðstafana vegna óveðursspár, segir hann að unnið sé eftir ákveðnum verklagsreglum eins og t.d. hvernig vélarnar séu varðar fyrir mögulegu foktjóni.