Öll kennsla í leik- og grunnskólum í Reykjavík fellur niður

Skólahald fellur niður í borginni á morgun, jafnt í leik- …
Skólahald fellur niður í borginni á morgun, jafnt í leik- og grunnskólum. Rauð veðurviðvörun hefur verið gefið út og gildir hún til hádegis á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kennsla í öllum grunnskólum og leikskólum í Reykjavík fellur niður á morgun, föstudag, vegna veðurs. Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið fyrir hádegi á morgun. Þetta er fyrsta rauða viðvör­un­in sem Veður­stof­an gef­ur út fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið frá því litaviðvör­un­ar­kerfi Veður­stof­unn­ar var tekið í notk­un í nóv­em­ber 2017.

Von er á tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitafélaga og almannavörnum um skólahald í öðrum sveitarfélögum á morgun. Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið vegna veðursins sem skellur á öllu landinu snemma í fyrramálið. Lögreglan bendir á að um tíma verður ekkert ferðaveður á höfuðborgarsvæðinu. 

Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði borgarinnar verða flestar skólabyggingar þó opnar og stjórnendur verða að öllum líkindum á staðnum. Algjör lágmarksþjónusta verður veitt, til dæmis á frístundaheimilum, ef þörf þykir. Almannavarnir beina því til fólks að vera heima ef það hefur tök á. 

Þá fellur skólahald niður víða í framhaldsskólum en mbl.is hefur fengið upplýsingar um að skólahald felli niður í eftirfarandi framhalds- og mennta­skól­um á höfuðborg­ar­svæðinu: í Kvenn­skóla Reykja­vík­ur, Fjölbrautaskólanum í Ármúla, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Verzlunarskóla Íslands, Mennta­skól­an­um í Reykja­vík og Mennta­skólanum í Kópavogi. 

Kennslu í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík hefur einnig verið aflýst á morgun vegna veðurs.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert