Óveður hefur áhrif á skólahald

Skólahald fellur niður víða um land.
Skólahald fellur niður víða um land. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skólahald fellur niður víða um land á morgun. Foreldrar og nemendur eru hvattir til að fylgjast vel með veðurspá og tilkynningum frá skólum og sveitarfélögum.   

Skólahald fellur niður í eftirfarandi framhalds- og menntaskólum á höfuðborgarsvæðinu: í Kvennskóla Reykjavíkur, Menntaskólanum í Reykjavík og Menntaskóla Kópavogs.

Þá hefur Háskóli Íslands fellt niður skólahald á morgun.

Allt skólahald fellur niður í Skagafirði, Húnavatnssýslum og annar staðar á Norðurlandi vestra. Þetta á við um leik-, grunn-og tónlistarskóla. Sú ákvörðun var tekin eftir fund Almannavarnarnefnda Skagafjarðar og Húnavatnssýslna. 

Sömu sögu er að segja af skólahaldi á Suðurlandi. Á Hvolsvelli verða bæði leik- og grunnskólinn lokaður. Þetta er einnig í gildi á Hellu og Laugalandi. Grunnskólinn á Hellu, Laugalandsskóli, Leikskólinn á Laugalandi og Leikskólinn Heklukot verða þar af leiðandi allir lokaðir. Íþróttamiðstöðvarnar á Hellu og Laugalandi verða lokaðar fyrir hádegi og allar líkur eru til að önnur þjónusta sveitarfélagsins verði skert.

Viðbúið er að skólahald í sveitarfélaginu Árborg muni raskast á morgun, ýmist falli alveg niður fyrir hádegi eða raskist. Skólaakstur hefur verið felldur niður og því ekki víst að það takist að fullmanna skólana. Hins vegar er útlit fyrir að veðrið batni eftir hádegi og því ættu leikskóla- og frístundastarf að geta orðið með eðlilegum hætti. 

Þeir framhaldsskólar á höfuðborgarvæðinu sem gera ráð fyrir venjulegum kennsludegi á morgun þar til annað kemur í ljós eru Menntaskólainn við Sund, Verslunarskóli Íslands og Menntaskólinn við Hamrahlíð. Hins vegar bent á að fygljast með tilkynningum frá skólanum ef staðan breytist.  

Í tilkynningu frá Jóni Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, segir að kennsla falli niður á morgun. Þá bendir hann starfsfólki sem eigi erfitt með að mæta til vinnu á að vinna heima eigi það tök á því. 

Tekið skal fram að þetta er ekki tæmandi listi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert