Veðurstofa Íslands hefur hækkað viðvörun vegna veðurs fyrir morgundaginn úr appelsínugulri í rauða á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Suðausturlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem rauð viðvörun er gefin út í þessum landshlutum frá því að litakerfi Veðurstofunnar tók gildi. Rauð viðvörun var fyrst gefin út fyrir Norðvesturland í óveðrinu í desember síðastliðnum.
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna fyrir allt landið vegna austanaftakaveðursins sem skellur á öllu landinu í nótt.
Rauða viðvörunin gildir ýmist frá klukkan 5 eða 6 í nótt og til hádegis. Spáð er austan 20-30 metrum á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu og í nálægum sveitarfélögum. Örfá hverfi eru í þokkalegu skjóli fyrir austanátt og veðrið nær sér því síður á strik þar, segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Búast má við samgöngutruflunum á meðan veðrið gengur yfir og að flugsamgöngur leggist af. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdarsvæðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni.