„Þetta er hættulegt veður“

Rauð viðvörun hefur verið gefin út vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu, …
Rauð viðvörun hefur verið gefin út vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Suðausturlandi. Fólk ætti að halda sig innandyra á meðan viðvörunin er í gildi. Kort/Veðurstofa Íslands

„Þetta er hættulegt veður og fólk ætti að vera heima ef það hefur tök á,“ segir Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Rauð viðvörun hefur verið gefin út á höfuðborg­ar­svæðinu, Suður­landi, Faxa­flóa og Suðaust­ur­landi.

Rauða viðvörunin er í gildi fyrir hádegi á öllum svæðunum en á höfuðborgarsvæðinu er hún í gildi frá sjö til ellefu í fyrramálið. Þetta er fyrsta rauða viðvörunin sem Veðurstofan gefur út fyrir höfuðborgarsvæðið frá því litaviðvörunarkerfi Veðurstofunnar var tekið í notkun í nóvember 2017.

„Þetta er í annað skiptið sem við sendum þessa viðvörun út,“ segir Elín en rauð viðvörun var gefin út á Ströndum og Norðurlandi vestra í ofsaveðrinu í desember.

Spáð er aust­an 20-30 metr­um á sek­úndu á höfuðborg­ar­svæðinu og í ná­læg­um sveit­ar­fé­lög­um. Bú­ast má við sam­göngu­trufl­un­um á meðan veðrið geng­ur yfir og að flug­sam­göng­ur legg­ist af. Hætt er við foktjóni og eru bygg­ing­araðilar hvatt­ir til að ganga vel frá fram­kvæmd­a­svæðum.

Elín ítrekar að það gæti skapast mikil hætta ef fólk er á ferðinni á þeim tíma sem rauða viðvörunin er í gildi.

Örfá hverfi eru í þokka­legu skjóli fyr­ir austanátt og veðrið nær sér því síður á strik þar en Elín segir að fólk þurfi yfirleitt að fara á milli hverfa til að komast til vinnu eða skóla. „Það þurfa allir að taka það til sín að vera ekki á ferðinni ef þeir geta mögulega komist hjá því.“

Spurð segir Elín að viðvaranir hafi verið færðar í rautt stig vegna þess að mjög miklar líkur séu á því að spárnar rætist:

„Kerfið byggist upp á áhrifum veðurs og líkum. Samfélagsleg áhrif af þessu veðri geta verið mjög mikil. Líkurnar eru orðnar miklu meiri eftir því sem nær dregur. Veðrið gengur á land í kvöld við suðurströndina og við sjáum lægðina vel á tunglmyndum. Okkur fannst tími til kominn að klára viðvörunarfasann.“

Að sögn Rögnvaldar Ólafssonar hjá almannavörnum á veðrið að ná hámarki milli klukkan 7 og 11 í fyrramálið. Vonda veðrinu getur fylgt snjókoma og blindbylur, og segir Rögnvaldur að æskilegt sé að sem fæstir bílar verði á götunum. Þá er viðbúið að einhverjar truflanir geti orðið á raforkukerfi, segir Rögnvaldur, en bætir við að raforkufyrirtæki hafi gert ráðstafanir og verði með aukinn mannskap á vakt á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert