„Þetta er hættulegt veður og fólk ætti að vera heima ef það hefur tök á,“ segir Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Rauð viðvörun hefur verið gefin út á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa og Suðausturlandi.
Rauða viðvörunin er í gildi fyrir hádegi á öllum svæðunum en á höfuðborgarsvæðinu er hún í gildi frá sjö til ellefu í fyrramálið. Þetta er fyrsta rauða viðvörunin sem Veðurstofan gefur út fyrir höfuðborgarsvæðið frá því litaviðvörunarkerfi Veðurstofunnar var tekið í notkun í nóvember 2017.
„Þetta er í annað skiptið sem við sendum þessa viðvörun út,“ segir Elín en rauð viðvörun var gefin út á Ströndum og Norðurlandi vestra í ofsaveðrinu í desember.
Spáð er austan 20-30 metrum á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu og í nálægum sveitarfélögum. Búast má við samgöngutruflunum á meðan veðrið gengur yfir og að flugsamgöngur leggist af. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Elín ítrekar að það gæti skapast mikil hætta ef fólk er á ferðinni á þeim tíma sem rauða viðvörunin er í gildi.
Örfá hverfi eru í þokkalegu skjóli fyrir austanátt og veðrið nær sér því síður á strik þar en Elín segir að fólk þurfi yfirleitt að fara á milli hverfa til að komast til vinnu eða skóla. „Það þurfa allir að taka það til sín að vera ekki á ferðinni ef þeir geta mögulega komist hjá því.“
Spurð segir Elín að viðvaranir hafi verið færðar í rautt stig vegna þess að mjög miklar líkur séu á því að spárnar rætist:
„Kerfið byggist upp á áhrifum veðurs og líkum. Samfélagsleg áhrif af þessu veðri geta verið mjög mikil. Líkurnar eru orðnar miklu meiri eftir því sem nær dregur. Veðrið gengur á land í kvöld við suðurströndina og við sjáum lægðina vel á tunglmyndum. Okkur fannst tími til kominn að klára viðvörunarfasann.“
Að sögn Rögnvaldar Ólafssonar hjá almannavörnum á veðrið að ná hámarki milli klukkan 7 og 11 í fyrramálið. Vonda veðrinu getur fylgt snjókoma og blindbylur, og segir Rögnvaldur að æskilegt sé að sem fæstir bílar verði á götunum. Þá er viðbúið að einhverjar truflanir geti orðið á raforkukerfi, segir Rögnvaldur, en bætir við að raforkufyrirtæki hafi gert ráðstafanir og verði með aukinn mannskap á vakt á morgun.