5.600 heimili og vinnustaðir urðu rafmagnslaus á svæði Rarik í óveðrinu sem gekk yfir landið í dag, flestir á Suðurlandi og Suðausturlandi. Rúmlega 100 staurar brotnuðu og einnig var eitthvað um vírslit og sláarbrot.
Þetta kemur fram á vef Rarik.
Þar kemur fram að einn bær í Hvalfirði er rafmagnslaus og viðgerð þar bíður morguns.
Á Suðurlandi eru bilanir á tíu stöðum. Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum undir Eyjafjöllum. Rafmagn er skammtað í Vík og eru íbúar beðnir um að spara rafmagn. Þá er rafmagnslaust frá Laugarvatni að Laugardalshólum. Einnig er rafmagnslaust á nokkrum bæjum í Landeyjum.
Rafmagnslaust er í innsta hluta Fljótshlíðar og inn í Þórsmörk. Línan milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur er úti og þar með er rafmagnslaust í Álftaveri, Meðallandi og hluta Skaftártungna. Reiknað er með að langflestir verði komnir með rafmagn í kvöld eða í nótt, annað hvort eftir viðgerð eða með varaaflsstöðum.
Á Austurlandi er búið er að koma á rafmagni í sveitarfélaginu Hornafirði. Á Vopnafirði er rafmagnslaust í Vesturárdal að hluta og út ströndina í Vopnafirði, að því er segir í tilkynningu.