„Gufuvitlaust veður“ í austanverðum Skagafirði

Óveðrið er við það að ná hámarki á Norðurlandi vestra. …
Óveðrið er við það að ná hámarki á Norðurlandi vestra. Sjá má að víða nær meðalvindhraði 30 m/s samkvæmt spákorti Veðurstofunnar núna kl. 12. Kort/Veðurstofa Íslands

Einungis hafa verið tvö minniháttar útköll hjá björgunarsveitum á Norðurlandi vestra vegna óveðursins, enn sem komið er hið minnsta.

Gunnar Örn Jónsson lögreglustjóri á Norðurlandi vestra segir heldur að bæta í veðrið í landshlutanum og að það sé þegar orðið alveg „gufuvitlaust veður“ í austanverðum Skagafirði, handan Héraðsvatna.

Samfélagið á Sauðárkróki og víðar í landshlutanum er í hægagangi í dag, segir Gunnar, en kennsla var felld niður í öllum skólum nyrðra.

Nokkur viðbúnaður er hjá yfirvöldum, en aðgerðastjórn var mönnuð á Sauðárkróki kl. 6 í morgun og sömuleiðis vettvangsstjórnir á Hofsósi og Blönduósi.

„Þetta hefur verið stóráfallalaust,“ segir lögreglustjórinn, en hann bjóst við því að verðið yrði í hámarki um hádegisbil eða kannski aðeins seinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert