Tekur því ekki að setja ruslatunnurnar út aftur

Gul viðvörun er í gildi í Vestmannaeyjum vegna veðurs. Um …
Gul viðvörun er í gildi í Vestmannaeyjum vegna veðurs. Um hádegi á morgun gengur önnur lægð yfir eyjuna og eru bæjarbúar hvattir til að nýta lognið á undan storminum til að festa það sem losnaði í óveðrinu í morgun. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Vind er tekið að lægja í Vestmannaeyjum eftir aftakaveðrið síðasta rúma hálfa sólarhringinn en það er skammt stórra högga á milli. Á morgun er von annarri lægð. 

Rafmagnstruflanir hafa verið í bænum frá því í nótt og varaafl var ræst í morgun til að tryggja stöðugri rekstur. Útlit var fyrir að rafmagn kæmi að fullu á að nýju síðdegis en Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að útlit sé fyrir að viðgerðin geti staðið fram á nótt. 

Í fyrramálið er spáð austanátt á Suðurlandi, 15-25 metrum á sekúndu með dálítilli rigningu. Bæta fer í vind upp úr hádegi og stendur versta veðrið yfir fram á miðjan dag.

„Þrátt fyrir að ofsinn í veðrinu verði ekki eins og í gær er ástæða fyrir fólk að nota lognið á undan storminum til þess að festa það sem losnaði í gær og tryggja það fyrir morgundaginn. Þá tekur því ekki að setja ruslatunnurnar út aftur fyrr en lægðin er gengin yfir,“ segir í færslu lögreglunnar í Vestmannaeyjum á Facebook. 

Eins og áður ef aðstoðar er þörf er fólki bent á að hringja í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka