Störfum fer senn að ljúka í Samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð en hún var virkjuð á miðnætti. Aðgerðir viðbragðsaðila hafa gengið vel og almenningur reyndist vel undirbúinn og fór að tilmælum viðbragðsaðila og yfirvalda, samkvæmt upplýsingum frá Rögnvaldi Ólafssyni, aðalvarðstjóra hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Sérlega kröpp lægð gekk inn á landið í nótt og í fyrsta sinn var rauð veðurviðvörun gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið, Suð- og Suðausturland og við Faxaflóa.
Veðrið hefur haft töluverð áhrif. Bátur sökk í Eyjum, bílar hafa fokið til í Reykjanesbæ, þak fauk af fjölbýlishúsi á Kjalarnesi og maður var færður á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir þakplötu í Hvalfirði. Einnig hefur sjór gengið á land á Suðurnesjum, bæði í Reykjanesbæ og Garði, og það valdið tjóni.
„Nú eru bara Vestfirðirnir eftir, hinir eru komnir fyrir vind,“ segir Rögnvaldur. Helsta verkefnið þessa stundina snýr að því að meta umfang rafmagnsleysis á Suðurlandi og hvaða truflanir það hefur í för með sér fyrir fjarskipti.
„Veðrið á Vestfjörðum er ekki að valda miklum usla þannig trúlega getum við farið að loka hérna fljótlega,“ segir Rögnvaldur. Rafmagnstruflanir hafa einnig verið á Vestfjörðum og undir kvöld þegar selta í tengivirkinu í Breiðadal olli því að Ísafjarðarlína 1 fór út og rafmagnslaust varð á Flateyri um tíma. Varaafl er nú komið í gang en straumleysi verður í sveitinni í Önundarfirði og hluta eyrarinnar samkvæmt tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða.
Þá varð einnig rafmagnslaust hjá Elkem og Norðuráli um tíma. Straumur er kominn aftur á en ekki að fullu. Unnið er að lausn í samstarfi við Landsnet.
Í fyrramálið kemur ný lægð upp að austanverðu landinu með talsverðri úrkomu og vindi en ekki er talin þörf á að virkja samhæfingarstöðina, að minnsta kosti eins og staðan er núna. „Við reiknum ekki með að manna neitt hérna hjá okkur en við verðum í startholunum.“
Rögnvaldur segir almannavarnir ekki hafa almenna yfirsýn yfir umfang tjóns eftir óveðrið og að það muni taka nokkra daga að meta það. Einhver slys hafa verið á fólki en áverkar hafa verið minniháttar. Ekki hafa borist fregnir af afleiðingum vegna rafmagnsleysis. „Við höfum ekki heyrt af neinum alvarlegum meiðslum.“
Aðgerðir viðbragðsaðila gengu almennt vel í dag og segir Rögnvaldur að það hafi komið sér vel að allar spár gengu eftir. „Það hjálpaði okkur gríðarlega mikið að lægðin fylgdi ferli sem spáin sagði til um. Það er fátt í þessu sem hefur komið á óvart,“ segir hann. Þá hjálpaði það sömuleiðis til að hiti var hærri en spár gerðu ráð fyrir og úrkoma minni. „Við sluppum við vesen sem fylgir skafrenningi og snjókomu á höfuðborgarsvæðinu.“