Snarpar hviður og mögulegar vegalokanir

Eftir aftakaveður gærdagsins fer aftur að hvessa upp úr hádegi …
Eftir aftakaveður gærdagsins fer aftur að hvessa upp úr hádegi og reikna má með snörpum vindhviðum, 35-40 m/s, einkum við Skógafoss og við Steina um tíma eftir hádegi. Leiðinni frá Markarfljóti að Vík verður mögulega lokað um tíma vegna óveðurs. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Vetrarfærð er í flestum landshlutum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Eftir aftakaveður gærdagsins fer aftur að hvessa upp úr hádegi og reikna má með snörpum  vindhviðum, 35-40 m/s, einkum við Skógafoss og við Steina um tíma eftir hádegi. Leiðinni frá Markarfljóti að Vík verður mögulega lokað um tíma vegna óveðurs.

Þá verður hríðarveður á Fjarðarheiði eftir hádegi og skafrenningur og lélegt skyggni á Mývatns- og Möðrudalsöræfum síðar í dag.

Gul viðvörun tekur gildi á Suðurlandi, Vestfjörðum og Suðausturlandi um hádegi í dag. 

Engin útköll bárust vegna veðurs á Vestfjörðum í gær en óvissustig vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Nokkrar tilkynningar bárust um snjóflóð á Tröllaskaga og norðanverðum Vestfjörðum í gær. 

Ófært er að Klettshálsi en unnið að hreinsun. Flateyrarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu en búið er að opna Súðavíkurhlíð en snjóflóðahætta er talin möguleg í dag. 

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á vegum á Norðurlandi og Siglufjarðarvegi hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu. Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er opinn en snjóflóðahætta er talin möguleg í dag. Vegurinn um Víkurskarð er lokaður. 

Hálka eða snjóþekja er á vegum en flughált á Aðaldalsvegi. Ófært er á Hófaskarði og Brekknaheiði en unnið að hreinsun. Í Ljósavatnsskarði er óvissustig vegna snjóflóðahættu en vegurinn er opinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka