Varað við sjávarflóðum með nýrri lægð

Frá Garði í gær. Veðurstofan varar við auknum líkum á …
Frá Garði í gær. Veðurstofan varar við auknum líkum á sjávarflóðum á Suður- og Austurlandi þar sem lágur loftþrýstingur er við landið. Ljósmynd/Davíð Ásgeirsson

Ný lægð nálgast landið í dag eftir aftakaveður gærdagsins, en nú úr suðri. Veðurstofan varar við auknum líkum á sjávarflóðum á Suður- og Austurlandi þar sem lágur loftþrýstingur er við landið og mikill áhlaðandi og allvíða mikið brim. 

Mik­ill sjór flæddi á land á Reykja­nesi í óveðrinu í gær, ekki síst við Ægis­götu í Kefla­vík og í Garði í Suður­nesja­bæ þar sem mæðgum og köttum var bjargað úr íbúðarhúsi eftir að sjór flæddi að húsinu.

Spáð er 13-20 metrum á sekúndu en hvassara um tíma norðvestan til og syðst á landinu. Gular viðvaranir taka gildi eftir hádegi á Vestfjörðum, Suðurlandi og á Suðausturlandi. Það verður víða úrkoma með köflum, ýmist í formi snjókomu, slyddu eða rigningar, en úrkomulítið suðvestanlands. Það hlýnar með deginum, og síðdegis verður hitinn 0 til 6 stig, hlýjast suðaustanlands.

Í nótt dregur úr vindi og úrkomu, og það verður skaplegt veður víðast hvar á morgun, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings. Annað kvöld og aðfaranótt mánudags hvessir af norðri með snjókomu norðanlands, en svo er útlit fyrir batnandi veður þegar líður á mánudaginn.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka