Vilja víðtækari „Procar-lög“ og hærri sektir

Í frumvarpinu er lagt til að Samgöngustofa fái heimild til …
Í frumvarpinu er lagt til að Samgöngustofa fái heimild til þess að sekta bílaleigur sem verða uppvísar að því að breyta kílómetrastöðu ökutækja um tvær milljónir króna. Það þykja minni hluta atvinnuveganefndar ekki nægilega ströng viðurlög. mbl.is/Hari

Þingmenn Miðflokksins í atvinnuveganefnd vilja að nýtt frumvarp til laga um leigu skráningarskyldra öktuækja, þar sem kveðið á að um að bílaleigum verði óheimilt að breyta kílómetrastöðu akstursmælis ökutækja og Samgöngustofu veittar sektarheimildir vegna slíkra brota, verði víðtækara og úrræði til refsinga sem kveðið er á um í frumvarpinu verði hert. Þetta kemur fram í minnihlutaáliti þeirra.

Þingmennirnir, þeir Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson, vilja í fyrsta lagi að málið verðið skoðað í víðara samhengi, þannig að hægt verði að beita refsingum alla þá sem skrúfa niður kílómetrastöðu ökutækja, en ekki bara bílaleigur.

Þessu er meiri hluti nefndarinnar raunar einnig sammála og áréttar hann í áliti sínu að þegar akstursmæli ökutækis er breytt í þeim tilgangi að auka verðmæti þess í viðskiptum milli aðila varðar slík háttsemi við almenn hegningarlög.

Þó hvetur meiri hlutinn samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið til þess að setja skýrari reglur um skráningu kílómetrastöðu akstursmæla við reglubundna skoðun og miðlun þeirra upplýsinga til Samgöngustofu.

Ágóðinn geti verið langt umfram tvær milljónir

Í minnihlutaáliti Miðflokksmanna segir einnig að þær sektarheimildir Samgöngustofu sem lagðar eru til séu of lágar, en lagt er til í frumvarpinu, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra lagði fram, að Samgöngustofa geti beitt bílaleigur allt að tveggja milljóna króna sektarákvörðunum.

Þetta telja þingmennirnir ekki nógu hörð viðurlög og álit þeirra er að það hámark sekta sem lagt er til í frumvarpinu dugi skammt, enda geti ávinningur vegna slíkra brota numið umtalsvert hærri fjárhæð.

Misferli Procar-bílaleigunnar, sem komst upp fyrir rúmu ári, er ástæðan …
Misferli Procar-bílaleigunnar, sem komst upp fyrir rúmu ári, er ástæðan fyrir því að verið er að breyta lögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einnig segja þeir í áliti sínu að þeir séu á þeirri skoðun að niðurfelling starfsleyfis sé markvissara úrræði en sektir, en í greinargerð með frumvarpinu sagði að sektir væru skilvirkara úrræði en niðurfelling starfsleyfis, þar sem skrifleg viðvörun og frestur til úrbóta sé nauðsynlegur undanfari niðurfellingar en beita megi sektum fyrirvaralaust.

„Þá er einnig rakið að niðurfelling starfsleyfis kunni að vera of víðtæk skerðing á atvinnufrelsi og eignarrétti viðkomandi rekstraraðila. Minni hlutinn bendir þó á, líkt og reynslan sýnir, að um getur verið að ræða stórfelld brot þar sem akstursmælar fjölda ökutækja hafa verið færðir niður og seldir grandlausum kaupendum. Að mati minni hlutans er niðurfelling starfsleyfis markvissara úrræði og ekki umfram það sem eðlilegt getur talist þegar brot eru stórfelld. Í því sambandi bendir minni hlutinn á að brotin eru framin í þeim ásetningi að hagnast fjárhagslega á kostnað fjárhagslegra hagsmuna og öryggis neytenda,“ rita þingmennirnir, sem segjast taka undir þá viðleitni sem í frumvarpinu birtist, en telja of skammt gengið miðað við alvarleika háttseminnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert