Sumartími í næstsíðasta sinn

Sólarganginum fæst ekki breytt og því reyna mennirnir að haga …
Sólarganginum fæst ekki breytt og því reyna mennirnir að haga lífi sínu, og klukku, eftir honum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sumartími tók gildi í Evrópu í nótt. Er klukkan í nágrannaríkjum Íslands í Vestur-Evrópu því tveimur klukkustundum á undan klukkunni hér á landi (GMT+2), en ekki klukkustund líkt og á veturna. Þannig verður því háttað fram til sunnudagsins 25. október, eða næstu 30 vikur.

Evrópuþingið samþykkti árið 2018 að frumkvæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að klukkuhringli milli sumar- og vetrartíma skyldi hætt í Evrópu. 84% þátttakenda í samráðsgátt Evrópusambandsins höfðu áður sagst styðja breytinguna.

Áætlanir gera ráð fyrir að breytingin taki gildi á næsta ári. Fyrir þann tíma þarf hvert ríki fyrir sig að ákveða hvort það hyggst halda í núverandi sumartíma, sem þegar er í gildi meirihluta ársins, eða vetrartímann. Vegast þar á annars vegar sjónarmið þeirra sem kjósa heldur morgunbirtu og hins vegar þeirra sem benda á að birt­u­stundum á vöku­tíma muni fækka til muna verði haldið í eilífan vetrartíma. 

Þær deilur eru Íslendingum að góðu kunnar. Íslensk stjórnvöld ákváðu árið 1968 að hætta að nota sumar- og vetrartíma og halda sig þess í stað við sumartímann (GMT) allt árið um kring. Margsinnis, jafnan í svartasta skammdeginu, hefur verið lagt til að Íslendingar seinki klukkunni um klukkustund yfir í gamla vetrartímann (GMT-1).

Í vetur stóð yfir samráðsferli stjórnvalda um breytingu klukkunnar, þar sem kanna átti fýsileika þess að seinka henni. Sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is í janúar að niðurstöður úr því ferli ættu að liggja fyrir um vorjafndægur, sem voru í síðustu viku. Af augljósum ástæðum eru brýnni mál í forgangi stjórnvalda um þessar mundir, en þegar blaðamaður náði tali af Katrínu í vikunni sagði hún að einhver bið yrði á niðurstöðunum.

Í dag kom sól up klukkan 6:55 í Reykjavík, og …
Í dag kom sól up klukkan 6:55 í Reykjavík, og sest hún klukkan 20:12. Ef klukkunni væri seinkað hefði hún komið upp 5:55 og sest 19:12. Deila má um ágæti þess. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka