Heimiluðu að meðmælum verði safnað rafrænt

Kjörtímabil forseta rennur út í ár og eru áformaðar kosningar …
Kjörtímabil forseta rennur út í ár og eru áformaðar kosningar í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alþingi samþykkti í gær breytingu á lögum um framboð og kjör forseta Íslands, en þar var meðal annars gert heimilt, til bráðabirgða, að safna megi meðmælum með forsetaefni rafrænt. Var þetta gert vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru nú í samfélaginu og nær aðeins yfir forsetakosningar sem eru áformaðar í sumar.

Samkvæmt lögunum bætist eftirfarandi ákvæði við núhljóðandi lög, nr. 36/1945: 

Ráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð að safna megi meðmælum með forsetaefni rafrænt. Ráðherra skal m.a. mæla fyrir um form og viðmót sem Þjóðskrá Íslands lætur í té, tegund rafrænnar auðkenningar meðmælenda, meðferð persónuupplýsinga og varðveislu og eyðingu upplýsinga. Við rafræna skráningu meðmæla er Þjóðskrá Íslands heimilt að kanna hvort meðmælandi sé kosningarbær.
Þjóðskrá Íslands er heimilt að beiðni yfirkjörstjórnar að samkeyra meðmælendalista forsetaefnis við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 2021.

Þegar málið var lagt fram fyrr í mánuðinum var haft eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að þetta væri nauðsynlegt skref vegna samkomubanns og annarra tilmæla. 

Samhliða þessu voru þrjár breytingar gerðar á lögunum þar sem heiti sveitarfélaga var uppfært miðað við núverandi heiti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert