Procar fær ekki sex bíla frá Bílabúð Benna

Kröfu bílaleigunnar Procar þess efnis að sex Opel Mokka-bifreiðar yrðu …
Kröfu bílaleigunnar Procar þess efnis að sex Opel Mokka-bifreiðar yrðu teknar úr vörslum Bílabúðar Benna og afhentar bílaleigunni var hafnað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kröfu bílaleigunnar Procar þess efnis að sex Opel Mokka-bifreiðar yrðu teknar úr vörslum Bílabúðar Benna og afhentar bílaleigunni var hafnað. Landsréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að ágreiningur hafi snúist um hvort viðgerðir, sem gera þurfti á bílunum, hafi komið til vegna skorts á viðhaldi eða galla.

Bílabúð Benna, sem er með umboð fyrir Opel á Íslandi, taldi bílana hafa bilað vegna lélegs viðhalds af hendi Procar. Bílaleigan taldi hins vegar að Bílabúðin bæri ábyrgð á viðgerðunum vegna meintra galla.

Procar benti á að frá stofnun hefði fyrirtækið átt rúmlega sjö þúsund bíla og aldrei lent í sambærilegum vandræðum. Gallarnir sneru að því að ef ekki væri notuð rétt gerð að smurolíu gæti það valdið vélarbilun. 

Bílabúð Benna telur það hafa mikla þýðingu fyrir máið að Procar hafi orðið uppvís að því að stunda umfangsmikið svindl með með notaðar bifreiðar með því að snúa niður akstursæla þeirra. 

Í dómi Landsréttar kemur fram að engin gögn staðfesti að ágallar sem Procar telji vera á bifreiðunum orsaki þær vélarbilanir sem gera þurfti við. 

Þá sé heldur ekki að finna gögn í málinu sem styðji að vélarbilunum í bílunum megi rekja til framleiðslugalla sem Bílabúð Benna beri ábyrgð á. Kröfu Procar var því hafnað og bílaleigunni gert að greiða Bílabúð Benna 300.000 krónur í kærumálskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert