„Þetta er allt ónýtt“

Frá eldsvoðanum í Hrísey.
Frá eldsvoðanum í Hrísey. Ljósmynd/Birgir Sigurjónsson

„Það er rosa eld­ur þarna. Þetta er allt ónýtt,“ seg­ir Mika­el Sig­urðsson, íbúi í Hrís­ey. Hann, líkt og aðrir íbú­ar eyj­unn­ar, var vak­inn eldsnemma í morg­un en til­kynnt var um eld í gamla frysti­hús­inu í Hrís­ey um klukk­an fimm í morg­un.

Mik­ill mann­skap­ur og búnaður hef­ur verið send­ur í eyj­una í morg­un auk heima­manna sem taka þátt í slökkvi­starf­inu. Ein­hver hús hafa verið rýmd og lög­regl­an biður íbúa um að loka öll­um glugg­um hjá sér og auka kynd­ingu. Um tíu manns störfuðu í frysti­hús­inu.

Mika­el von­ast til þess að slökkvilið sé að ná betri tök­um á eld­in­um.

„Það er sunn­an­gola og þá kem­ur vind­ur­inn ekki hérna upp í þorpið,“ seg­ir Mika­el og bæt­ir við að þá fjúki reyk­ur­inn frá eld­in­um á haf út.

Annað hafi verið uppi á ten­ingn­um snemma í morg­un en Ólaf­ur Stef­áns­son, slökkviliðsstjóri á Ak­ur­eyri, sagði við mbl.is fyrr í morg­un að vind­átt­in hefði verið að breyt­ast fram og til baka.

Mika­el seg­ir að vel hafi verið staðið að öllu í morg­un en hann og eig­in­kona hans voru vak­in eldsnemma í morg­un. 

„Það kom hérna maður snemma í morg­un, bankaði og vakti alla,“ seg­ir Mika­el sem er ánægður með aðstoðina sem borist hef­ur frá Dal­vík og Ak­ur­eyri. Hann held­ur sig inni, með alla glugga lokaða, á meðan slökkviliðsmenn berj­ast við eld­inn.

Hér fyr­ir neðan má sjá mynd­skeið sem Laimon­as Rimkus birti á face­book í morg­un. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert