Skoða rafmagn vegna eldsvoða í Hrísey

Frá rústunum í Hrísey í gær.
Frá rústunum í Hrísey í gær. mbl.is/Ellert

Sérfræðingur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fór ásamt þremur lögregluþjónum, tveimur frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og einum rannsóknalögregluþjóni frá Akureyri, með fyrstu ferju til Hríseyjar í morgun. Vettvangsrannsókn á brunavettvangi þar stendur yfir.

Þetta staðfest­ir rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á Ak­ur­eyri.

Gert er ráð fyrir því að vettvangsrannsókninni ljúki síðar í dag og þá verður það sem eftir er af gamla frystihúsinu, sem varð eldi að bráð í gærmorgun, afhent tryggingafélögum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er ekkert hægt að segja til um eldsupptök á þessari stundu. Hins vegar var sérfræðingurinn frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sérstaklega fenginn með til að skoða rafmagnsþáttinn.

Karl­maður sem gisti í gamla frysti­hús­inu hringdi í Neyðarlín­una þegar hann varð var við eld­inn. Maðurinn var verkstjóri í húsinu og gisti þar vegna þess að hann býr ekki á eyjunni. 

Fram kom í viðtölum hans við viðbragðsaðila í gær að ef hann hefði ekki gist í frystihúsinu hefði hann ekki komist í fyrirhugaða vinnu sína í tæka tíð vegna þess að fyrsta ferja til eyjunnar er of seint á ferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert